Með sjálfbærni að leiðarljósi
Sjálfbærni Verkís
Hlutverk Verkís er að skapa verðmæti og styðja þróun samfélagsins og innviða þess með faglegri ráðgjöf og hönnun. Verkís er með skýra framtíðarsýn og hefur sett sér stefnumið með áherslu á viðskiptavini, starfsfólk og samfélagið. Áherslur í starfseminni eru settar fram í sjálfbærni-, þjónustu- og mannauðsstefnum sem jafnframt styðja vel við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og UN Global Compact.
Verkís leggur mikinn metnað í að allir geti notið góðs af starfsemi fyrirtækisins. Við hvetjum til ábyrgðar í störfum okkar, horfum til framtíðar með sjálfbærni að leiðarljósi, og höfum þannig jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfi okkar. Starfsfólk Verkís leggur sig fram við að leita lausna og veita þjónustu sem samræmist meginviðmiðum um sjálfbæra þróun.
Helstu niðurstöður sjálfbærniskýrslu 2023
Heildarlosun Verkís 2023
Heildarlosun Verkís árið 2023 var 511 tonn CO2-ígildi. Heildarlosun gróðurhúslofttegunda (GHL) á hvern starfsmann var því 1,4 tonn CO2-ígildi. Losun frá öllum umföngum jókst á milli ára og stærsti hluti kolefnisspors Verkís er enn losun sem á sér stað í umfangi 3. Umfang 3 felur í sér óbeina losun og er sú losun frá úrgangi og vinnuferðum starfsfólks ásamt ferðum starfsfólks í og úr vinnu. Árið 2023 fór Verkís í árshátíðarferð til Króatíu, heildarlosun árshátíðarinnar er samtals aukalega 342 tonn CO2-íg. Því voru samtals 853 tonn kolefnisjöfnuð með vottuðum kolefniseiningum fyrir árið 2023.
Helstu niðurstöður sjálfbærniskýrslu 2023
Uppruni losunar 2023
Stærstu losunarþættir Verkís árið 2023 falla undir umfang 3. Þar undir falla vinnuferðir starfsfólks og ferðir starfsfólks úr og í vinnu, sem er samtals 66% af heildarlosun Verkís. Ferðaumsvif vegna verkefna árið 2023 hafa aukist frá árinu áður og greinilegt er að starfsfólk sækir meira í að mæta í vinnuna árið 2023 í stað þess að vinna að heiman. Undir umfang 3 fellur einnig úrgangur en heildarmagn úrgangs frá öllum starfstöðvum Verkís er 31 tonn, magn úrgangs á hvern starfmann Verkís er því 66 kg fyrir árið 2023. Endurvinnsluhlutfall úrgangs árið 2023 frá almennum rekstri Verkís var 92%.
Losun gróðurhúsalofttegunda í umfangi 1 felur í sér beina losun frá fyrirtækinu. Er það sú losun sem á sér stað við notkun jarðefnaeldsneytis á farartækjum í rekstri Verkís, samtals 35 tonn CO2-ígildi. Umfang 2 sem er samtals 14,3 tonn CO2-ígildi er óbein losun, sem kemur til vegna rafmagns- og hita notkunar fyrirtækisins.