Sjálfbærniskýrsla Verkís fyrir 2021
Sjálfbærniskýrsla Verkís fyrir 2021. Verkís hefur skilað sjálfbærniskýrslu vegna sáttmála SÞ um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) fyrir árið 2021. Samhliða skilunum var undirsíða á heimasíðu okkar um sjálfbærni uppfærð.
Samfélagsábyrgð með sjálfbærni að leiðarljósi hefur birst í starfsemi Verkís frá upphafi, svo sem í gæðaferlum og sérstökum áherslum á umhverfis- og öryggismál. Verkís tekur hlutverk sitt sem þátttakandi í samfélaginu alvarlega og leitar stöðugt nýrra leiða til að veita ráðgjöf sem styður við uppbyggingu sjálfbærra samfélaga.
Verkfræðingar og hönnuðir eru áhrifavaldar þegar kemur að sjálfbærni og tækniþróun, enda oft á tíðum lykilaðilar í rannsóknum og verkefnum sem tengjast nýsköpun. Í störfum okkar horfum við í átt að sjálfbærni og leggjum áherslu á að lágmarka neikvæð áhrif af þeim verkefnum sem við höfum átt aðkomu að.
Sjálfbærniskýrsla Verkís 2021
Vorið 2021 voru teknir upp fjarvinnusamningar hjá Verkís en þeir gera starfsfólki kleift að vinna einn til fjóra virka daga vikunnar heima. Þetta kemur í kjölfar þeirra breyttu aðstæðna sem sköpuðust í heimsfaraldri en margir sýndu áhuga á því að sinna vinnu sinni bæði að heiman og á skrifstofunni. Aukin heimavinna hefur bæði haft neikvæð og jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda hjá Verkís. Heildarlosun tók stökk á milli ára vegna tækjakaupa, annars vegar vegna uppsafnaðrar endurnýjunarþarfar og hins vegar vegna heimabúnaðar vegna fjarvinnusamninga. Kolefnisspor tækjanna reiknast á allt kaupárið þó líftími þeirra sé talsvert lengri.
Minnkun hefur orðið á umfangi sem viðkemur orku, húshitun, utanlandsferðum, prentun og úrgangi. Heimsfaraldurinn hefur áhrif á að losun dregst saman milli ára en einnig hefur fermetranotkun á hvern starfsmann minnkað í höfuðstöðvum Verkís þar sem fyrirtækið nýtir nú fjórar hæðir í stað fimm. Þá hefur losun vegna ferða starfsfólks dregist saman um 31% og kemur það til vegna aukinnar heimavinnu og notkunar fjarvinnusamninga.
Umfjöllunarefni skýrslunnar er ætlað að varpa ljósi á hvernig okkur hefur gengið að innleiða sjálfbærniviðmið, bæði í rekstri stofunnar og þeirri þjónustu sem við veitum, sem og að uppfylla þau markmið sem við settum okkur um sjálfbærni á árinu.
Verkís skilar sjálfbærniskýrslu í þriðja sinn | Fréttir | www.verkis.is