Niðurdæling hafin á Nesjavöllum
Niðurdæling á koldíoxíði (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) frá Nesjavallavirkjun er hafin eftir að ný tilraunastöð Carbfix til kolefnisföngunar- og förgunar við virkjun Orku náttúrunnar á Nesjavöllum var tekin í notkun.
Tilraunastöðin sem var þróuð og smíðuð fyrir verkefnið er færanleg, sem opnar möguleika á að nýta hana í önnur tilraunaverkefni á vegum Carbfix síðar meir. Tilraunastöðin var hönnuð og byggð í samvinnu við Verkís, Mannvit og Héðinn.
Verkís sá um verkefnisstjórn, samræmingu hönnunar, útboðsgögn framkvæmda og um fullnaðarhönnun og verkeftirlit vegna byggingaverkfræðihluta (byggingarvirki, steypuvinnu, jarðvinnu, lagnir í jörðu og utan húss, landmótun) og rafmagnsverkfræðihluta (raflagna, skynjara, strenglagna og húskerfa) verksins.
Eitt af markmiðum verkefnisins er að leggja grunn að fullri hreinsun á CO2 og H2S frá Nesjavallavirkjun síðar meir, með varanlegri hreinsistöð sem áætlað er að verði komin í notkun árið 2030, ásamt því að auka skilvirkni Carbfix tækninnar.
Nýja tilraunastöðin á Nesjavöllum fangar allt H2S sem í gegnum hana fer og allt að 98% af CO2. Hún afkastar um þrjú þúsund tonnum af CO2 á ári og um 1.000 tonnum af H2S, sem er u.þ.b. 20% af losun virkjunarinnar.
CO2 er leyst í vatni í stöðinni og er gashlöðnu vatni dælt í basaltsberglög um niðurdælingarholur. Þegar niðurdælingarvökvinn flæðir út í basaltsberggrunninn leysast málmar á borð við kalsíum, magnesíum og járn úr basaltinu, sem ganga í efnasamband við CO2 og falla út sem karbónatsteindir.
Verkefnið er hluti af GECO verkefninu (Geothermal Emission Control) sem er fjármagnað af Horizon 2020, rannsóknaáætlun Evrópusambandsins.
Hvernig virkar Carbfix? – Carbfix