Verkefni

Snjóflóðavarnir á Flateyri

Á Flateyri við Önundarfjörð er mikil hætta á snjóflóðum úr tveimur giljum eða skálum ofan byggðarinnar, Skollahvilft og Innra-Bæjargili.

Snjóflóðavarnarvirkin samanstanda af tveimur leiðigörðum.

Í október 1995 féll stórt snjóflóð úr Skollahvilft yfir hluta byggðarinnar og varð 20 manns að bana. Áður höfðu fallið flóð úr Innra-Bæjargili á hús í þorpinu án þess að manntjón hlytist af.

Snjóflóðavarnarvirkin samanstanda af tveimur leiðigörðum, 15 til 20 metra háum og 600 metra löngum, auk þvergarðs, sem er 10 metra hár og 350 metra langur. Garðarnir eru byggðir úr jarðvegsfyllingu, sem tekin er úr skriðunni báðum megin garðanna. Bratti þeirra að utanverðu er mikill til þess að auka virkni þeirra gagnvart snjóflóðum og draga jafnframt verulega úr efnismagni. Heildar­rúmmál fyllinga er 650.000 fermetrar. 

Garðarnir sönnuðu gildi sitt strax á fyrstu árunum eftir byggingu þeirra. Í febrúar 1999 féll talsvert mikið flóð úr Skollahvilft á innri garðinn og rann með honum alla leið í sjó fram. Í mars 2000 féll flóð úr Innra-Bæjargili á ytri garðinn og rann sömuleiðis með honum alla leið í sjó fram. Talið er að án varnargarðanna hefðu bæði þessi flóð náð inn í byggðina eins og hún var fyrir 1995.

Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð að kvöldi 14. janúar 2020. Annað þeirra féll úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Snjóflóðavarnargarðarnir í hlíðinni fyrir ofan Flateyri beindu báðum flóðum út í sjó en hluti flóðanna kastaðist yfir garðana. Í kjölfarið óskaði Ofanflóðanefnd eftir því við Verkís að gera úttekt á mögulegum endurbótum á ofanflóðavörnum á Flateyri og að við þá úttekt verði einnig skoðaðir hugsanlegir varnarkostir vegna hafnarinnar.

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við endurbættar snjóflóðavarnir á Flateyri sumarið 2023.

Tillögur Verkís vegna endurbættra snjóflóðavarna eru eftirfarandi:

  • Reistar verði þrjár keiluraðir ofan núverandi leiðigarða til þess að draga úr flóðhraða í bæði iðufaldi og þéttum kjarna áður en flóð lendir á leiðigarði og aðskilja iðufald og þéttan kjarna í flóði.
  • Þvergarður milli leiðigarða verði hækkaður og endurbyggður brattur með lítillega breyttri legu, til þess að draga úr hættu á yfirflæði.
  • Móta flóðrásir við báða leiðigarða, til þess að auka virka hæð leiðigarða og tryggja óhindrað rennsli snjóflóða meðfram görðunum og út í sjó.
  • Byggja lágan en brattan leiðigarð ofan hafnar til þess að beina flóðum frá höfn.
  • Setja upp um 2 km af snjósöfnunargrindum á Eyrarfjalli, til þess að draga úr tíðni flóða í byrjun vetrar úr upptakasvæðunum og þannig draga enn frekar úr hættu í byggð vegna iðufalds.
  • Styrkja glugga- og dyraop sem snúa upp í hlíð, í öllum húsum á áhættusvæði B, með áherslu á hús efst á hættusvæðinu.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Flateyri

Stærð:

15-20 metrar á hæð og 600 metrar á lengd

Verktími:

1996-1999, 2020-

 

Heimsmarkmið