Verkefni

Hellisheiðaræð

Hellisheiðaræð er aðveituæð fyrir heitt vatn frá Hellisheiðarvirkjun til Reykjavíkur, alls um 19,5 km löng.

Hellisheiðaræð formlega tekin í notkun í árslok 2010.

Hellisheiðaræð er aðveituæð fyrir heitt vatn frá Hellisheiðarvirkjun til Reykjavíkur, alls um 19,5 km löng. Þvermál pípunnar er 1.000 mm fyrstu 5 km frá Hellisheiðarvirkjun en 900 mm eftir það og getur með sjálfrennsli frá geymi við Hellisheiðarvirkjun flutt allt að 1.450 l/s af heitu vatni til geyma á Reynisvatnsheiði. Með dælingu í Hellisheiðarvirkjun sem nemur 10 bar þrýstingshækkun getur æðin flutt um 2.250 l/sek. Undirbúningur framkvæmda hófst í ársbyrjun 2008 og var Hellisheiðaræð formlega tekin í notkun í árslok 2010.
Æðin er í 97 m og upp í 265 m hæð yfir sjávarmáli. Vatni er dælt frá Hellisheiðarvirkjun sem er í um 259 m.y.s. um 1000 mm víða og 360 m langa pípu upp í geymi austan við stöðvarhúsið þar sem vatnsborð er í um 271 m.y.s. Rýmd geymis er um 950 m3 en gert er ráð fyrir því að byggður verði annar geymir þegar rennsli eftir æðinni vex. Frá geyminum er sjálfrennsli að Reynisvatnsheiði skammt austan Reykjavíkur. Hellisheiðaræð er hönnuð til að þola allt að 2,5 MPa hámarks þrýsting og því er hægt að auka flutningsgetu æðar umtalsvert með dælingu í Hellisheiðarvirkjun. Rennsli í æðinni er stjórnað með stjórnlokum í stýrihúsi á Reynisvatnsheiði og halda þeir fastri vatnshæð í geymi við Hellisheiðarvirkjun.
Við hámarks sjálfrennsli, 1.450 l/s, er vatnið um 2,5 klst. að komast frá Nesjavalla­virkjun til Reykjavíkur og þegar rennslið er 2.250 l/sek er það um 1,5 klst. á þeirri leið. Hitafall á leiðinn er um 0,5°C við hámarks sjálfrennsli. Æðin er gerð úr foreinangruðum stálpípum (hitaveitupípum) sem eru einangraðar með ureþani og í plasthlífðarkápu sem er 1.100 mm og 1.200 mm í þvermál. Æðin er niðurgrafin alla leið og á henni eru 5 lokabrunnar með 900 mm kúlulokum. Á Reynisvatnsheiði er hægt að tengja saman Hellisheiðaræð og Nesjavallaæð og þannig má blanda saman vatni frá þessum tveimur jarðvarmavirkjunum áður en það rennur inn í geyma á Reynisvatnsheiði.
Verkís annaðist verkefnastjórn, fullnaðarhönnun, gerð útboðsgagna, yfirferð tilboða, jarðtæknilega hönnun, pípulagnir, vélbúnað, burðarvirki og framkvæmdaeftirlit.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Hellisheiðarvirkjun til Reykjavíkur

Stærð:

19,5 km

Verktími:

2008-2010

 

Heimsmarkmið