Verkefni

Hallgrímskirkjuturn

Ástandsskoðun Verkís staðfesti lélegt ástand kirkjuturnsins.

Umfang skemmdanna var sýnilega mikið og brýn þörf fyrir viðgerð turnveggja, sem og að yfirfara og endurgera að hluta viðgerð turnspírunnar frá 1988.

Fyrirfram var vitað að um erfitt verkefni væri að ræða og að góð samvinna við verktaka og steypuframleiðanda væri mikilvæg. Reistir voru vinnupallar upp allan turninn og upp turnspíruna samhliða því að hafist var handa við að fjarlægja múrhúð af turnveggjunum með háþrýstu vatni og sandi ásamt því að brjóta burt ónýta steypu.
 
Með tilliti til ástands veggjanna var ákveðið að fjarlægja ystu 150 mm af yfirborðinu og endursteypa. Steypukápunni er ætlað að vernda steypuna fyrir innan gegn vatnsálagi og þar af leiðandi áframhaldandi frostskemmdum. Stöplarnir sem ganga út frá turnveggjunum voru mjög illa farnir og að undangengnu kostnaðarmati var ákveðið að fjarlægja þá í heild og endursteypa. Viðgerðir á turnspíru voru blanda af sprunguviðgerðum og endursteypu.
 
Að lokinni uppsteypu og viðgerðum var yfirborð turnsins múrhúðað að nýju með múrhúð sem þróuð var með samvinnu BM-Vallár, Ístaks og Verkís. Ítarleg þróunarvinna og rannsóknir fóru fram á nýrri múrhúð fyrir Hallgrímskirkju. Meðal annars voru gerðar rannsóknir á frostþoli, rakadrægni, styrk, rýrnun og áferðarformun. Með góðri samvinnu tókst að þróa múrhúð sem uppfyllti bæði tæknilegar og útlitslegar kröfur.
 
Í verklok var farið í viðgerðir á kirkjuskipinu innanhúss, eins og málun, innsetningu neyðarútganga og uppsetningu á bronshurð.
 
Verkís annaðist ástandsmat, verkáætlun, kostnaðaráætlun, verklýsingu, eftirlit með framkvæmdum og lokaúttekt.

Verkefnið í hnotskurn

Staðsetning:

Skólavörðustígur – Reykjavík

Stærð:

1.640 m²

Verktími:

2008-2010

 

Heimsmarkmið