03/10/2019

Hífa 16 metra langar pípur sem vega 2,9 tonn í Árbæ

Veg- og gatnahönnun
Hífa pípa vegna Árbæjaræðar

Hífa 16 metra langar pípur sem vega 2,9 tonn í Árbæ. Framkvæmdir við Árbæjaræð standa yfir þessa dagana og sér Verkís um framkvæmdaeftirlit fyrir hönd Veitna. Nýlega hófst verktaki handa við að hífa 16 metra langar hitaveitupípur af gerðinni DN700 sem vega um 2,9 tonn. Að mörgu þarf að huga við hífingar á svo löngu og þungu stykki.

Verkið felst aðallega í lagningu nýrrar 700 mm (DN700) stofnæðar hitaveitu, einangraðrar stálpípu, sem flytja á virkjanavatn frá Suðuræð við Rauðavatn að dreifikerfum Árbæjar og Ártúnshöfða ásamt stýristrengjum, tengibrunnum og jarðvír.

Að mörgu þarf að huga við hífingar á svo löngum og þungum stykkjum eins og verið er að hífa þessa dagana. Velja þarf hífingartæki, t.d. kranabíl, sem hefur nægilegt vinnusvið og getur lyft pípu. Undirlag hífingartækis og stoðfætur þurfa að vera á yfirborði sem þolir þunga hífingartækis og farms. Þegar hífa þarf svona langar pípur þá þarf að nota herðatré og breiðar stroffur til að plastkápa pípurnar og einangrun skemmist ekki við hífingu.

Allur hífingarbúnaður, keðjur í herðatré, krókar, lásar og stroffur sem notaðar eru við hífingar þurfa að vera viðurkenndar og þola þyngd pípunnar. Ávallt skal nota stýrilínu við hífingar og persónuhlífar. Aldrei má fara undir hangandi byrði eða hífa yfir starfsmenn. Í hvert skipti sem hífing fer fram skal yfirfara hífingarbúnað sérstaklega. Við flutning á pípum þarf að huga að stöflun, undirlagi flutningstækis og festa skal farminn tryggilega. Við lestun og losun skal hafa í huga að hlífðarkápan er viðkvæm fyrir hnjaski.

Verkið verður unnið í tveimur áföngum. Fyrri áfangi á árinu 2019 og síðari áfangi á árinu 2020

Veg- og gatnahönnun
Hífa pípa vegna Árbæjaræðar