23/09/2024

Vísindaferð Verkís til Danmerkur

Færeyingahúsið í Vesterbro

Föstudagskvöldið 20. september stóð Verkís fyrir vísindaferð í Færeyingahúsinu í Vesterbro, Kaupmannahöfn, í sól og blíðu. Markmið ferðarinnar var að kynna Verkís fyrir íslenskum verkfræðinemum og nýútskrifuðum úr DTU (Danmarks Tekniske Universitet). Viðburðurinn var vel sóttur, en um 90 nemendur og nýútskrifaðir verkfræðingar mættu til leiks.

Íslenskt sælgæti vakti lukku

Boðið var upp á gómsæta mini hamborgara, íslenskt sælgæti í miklu magni, og dönsk drykkjarföng, sem gáfu viðburðinum skemmtilegan blæ. Verkís sendi sjö fulltrúa til Danmerkur, meðal annars fulltrúa frá mannauðsteyminu, sem og rekstrarstjóra sviðanna S&U og BY, auk Guðrúnar Jónu, sviðsstjóra starfsstöðvasviðs, og Stefáns Bjarna, viðskiptastjóra O&I.

Elín Greta, mannauðsstjóri Verkís, hóf dagskrána með kynningu á Verkís og mannauði fyrirtækisins, Sunna Ósk, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, kynnti spennandi verkefni í Svartsengi, og Úlfar Dagur, fyrrverandi starfsmaður Verkís, sem nú er í MSc-námi í DTU, sagði frá reynslu sinni hjá Verkís og þeim fjölbreyttu verkefnum sem hann hefur unnið að, meðal annars orkuveri á Folaldahálsi, laxateljara í Elliðaám og olíukælikerfi fyrir burðarlegur.

Elín Greta, mannauðsstjóri Verkís, hóf dagskránna

Eftir kynningarnar var haldin Kahoot-spurningakeppni þar sem nemendur kepptu um verðlaun, meðal annars handklæði frá 66°Norður og 600 dkk gjafabréf á Pico Pizza fyrir efstu þrjú sætin. Kvöldið endaði á tónlist og notalegu spjalli við nemendur, þar sem þau fengu tækifæri til að ræða störf og verkefni Verkís og fá innsýn í framtíðarmöguleika innan fyrirtækisins.

Vísindaferðin er dýrmætur vettvangur til að styrkja tengsl við íslenska verkfræðinema í DTU og skapa mikilvæg samtöl um framtíðarstörf og áherslur í námi og starfi.

Heimsmarkmið

Færeyingahúsið í Vesterbro