19/03/2020

Vilja breyta leikskóla og heilsugæslustöð í íbúðir

Vilja breyta leikskóla og heilsugæslustöð í íbúðir
Endurnýjun húsnæðis Bolungavík sjálfbærni mannvirkja

Vilja breyta leikskóla og heilsugæslustöð í íbúðir. Á síðasta ári gerði Verkís úttekt á fimm fasteignum í eigu Bolungarvíkur með það fyrir augum að þeim yrði breytt í íbúðarhúsnæði. Fasteignirnar hafa m.a. gegnt hlutverki leikskóla, heilsugæslustöðvar og safns í gegnum tíðina. Úttekin var unnin af sérfræðingum Verkís á Ísafirði. Breytingarnar á fasteignunum gætu orðið meðal aðgerða til að vinna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum af COVID-19 veirunni.

Bæjaryfirvöld í Bolungarvík hafa að undanförnu unnið að nýrri húsnæðisáætlun þar sem fram kemur að umtalsverður skortur sé á íbúðum, einkum minni íbúðum. Unnið er að stofnun fasteignafélags í bænum sem mun vinna að því að breyta 2.200 m² af húsnæði í eigu bæjarins sem stendur ónotað í íbúðarhúsnæði.

Fasteignirnar sem um ræðir eru:

  • Höfðastígur 7. Húsið var byggt árið 1979 og er eina fasteignin af þessum fimm sem hönnuð var sem íbúðarhúsnæði. Seinna var því breytt í leikskóla.
  • Höfðastígur 15. Húsið var byggt árið 1977. Þar er heilsugæslustöð í dag og var húsið hannað með það í huga.
  • Miðstræti 19. Húsið var byggt árið 1952 og hannað sem sjúkrahús. Þar þó engin slík starfssemi í dag. Þegar er verið að innrétta íbúðir í hluta hússins sem úttekt Verkís náði ekki til.
  • Vitastígur 1, efri hæð. Húsið var byggt árið 1957. Upprunaleg hönnun gerði ráð fyrir skrifstofurými.
  • Vitastígur 3, efri hæð. Húsið var byggt 1971. Hæðin hýsir Náttúrugripasafn Bolungarvíkur og var hannað fyrir léttan iðnað.

Í úttekt Verkís er annars vegar áætlaður kostnaður við að útbúa 14 íbúðir í þessum fasteignum og hins vegar 18 íbúðir. Ekki er útilokað að íbúðirnar gætu verið enn fleiri. Kostnaður við breytingarnar er nokkuð misjafn milli fasteigna, allt frá 9,6 milljónum upp í 24,6 milljónir.

Áhættulítið og arðbært verkefni sem þurfi mikið vinnuafl

Í síðustu viku óskaði Vestfjarðastofa eftir upplýsingum frá Bolungarvíkurkaupstað um framkvæmdir sem möguleiki væri á að setja af stað á næstu 3 – 5 mánuðum.

Bæjarstjórnin hefur skilað minnisblaði og er fasteignaverkefnið í Bolungarvík á meðal þeirra sem þar eru tilgreind. Vestfjarðarstofa var með þessu að afla upplýsinga fyrir stjórnvöld sem undirbúa nú aðgerðir til að vinna gegn neikvæðum efnahagslegum áhrifum af COVID-19 veirunni.

Í minnisblaðinu segir einnig að unnt sé að hefja framkvæmdir innan 2 -3 mánaða. Verkefnið sé  áhættulítið og arðbært sem muni þurfa mikið vinnuafl.

Miðstræti 19 í Bolungarvík var byggt árið 1952 og hannað sem sjúkrahús. 

Umhverfisvænna að nýta mannvirkið sem er til staðar

Nýlega ræddi Ragnar Ómarsson, byggingafræðingur á Byggingasviði Verkís, sjálfbærni mannvirkja í viðtali við Fréttablaðið. Þar sagði hann að þegar hús er komið á þann stað í lífsferlinum að það þjónar ekki lengur tilgangi sínum þurfi að finna leiðir til þess að nýta mannvirkið á annan hátt eða nýta byggingarefni þess með öðrum hætti til að spara það bundna kolefni sem þegar er til staðar í húsinu.

„Við verðum að beina sjónum okkar að því hvernig hægt sé að endurnota mannvirki og byggingarefni. Í flestum tilfellum er umhverfisvænna að viðhalda því sem til staðar er frekar en að taka það í sundur og nota byggingarefnin annars staðar eins og gert hefur verið til dæmis í landfyllingum,“ sagði Ragnar eðal annars.

Það má segja að fasteignaverkefnið í Bolungarvík rími vel við þá hugsun sem felst í sjálfbærni mannvirkja og er það jákvætt.

Höfðastígur 7. Húsið var byggt árið 1979 og er eina fasteignin af þessum fimm sem hönnuð var sem íbúðarhúsnæði. Seinna var því breytt í leikskóla.

Þjónusta Verkís á sviði sjálfbærni mannvirkja

Frétt Bæjarins besta: Fjórar mögulegar framkvæmdir vegna COVID-19

Vilja breyta leikskóla og heilsugæslustöð í íbúðir
Endurnýjun húsnæðis Bolungavík sjálfbærni mannvirkja