Verkís undirritar samning um hönnun nýrrar legudeildarbyggingar við SAk
Verkís undirritaði í gær samning um hönnun nýrrar legudeildarbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk).Hönnun verkefnisins er skipt í fjóra áfanga en gert er ráð fyrir að útboðum á verklegum framkvæmdum verði lokið í maí 2026 og afhending nýbyggingarinnar verði í júní 2028. Eiríkur Steinn Búason, viðskiptastjóri og byggingarverkfræðingur hjá Verkís, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Verkís.
Nýbyggingin mun hýsa legudeildir fyrir skurð- og lyflækningadeild, auk dag-, göngu- og legudeildar fyrir geðdeild. Byggingin verður alls um 10.000 fermetrar að stærð og mun rísa sunnan við núverandi byggingar SAk, tengd eldra húsnæðinu. Hönnunarhópurinn hjá Verkís er stoltur og spenntur fyrir því að taka þátt í þessu samfélagslega mikilvæga verkefni.
Forval var haldið í lok síðasta árs og komust fimm hönnunarteymi áfram. Valmódel lokaða útboðsins var tvískipt: 60% vægi var lagt á gæði tillagna og 40% á tilboðsverð. Verkís, í samstarfi við TBL arkitekta, JCA Ltd. og Brekke & Strand, bar sigur úr býtum í þessu samkeppnisferli.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, og Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, lögðu áherslu á mikilvægi þessa verkefnis og sögðu það marka tímamót fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri og samfélagið í heild.