Verkís tók þátt í endurbótum á knattspyrnuhöllinni Fífunni
Knattspyrnuhöllin Fífan í Kópavogi hefur verið tekin í notkun á ný eftir umfangsmiklar endurbætur sem miðuðu að því að bæta aðstöðu íþróttafólks og styðja við sjálfbærari lausnir í mannvirkjagerð. Verkís sá um hönnun, verkefnastjórn og eftirlit með framkvæmdunum sem hófust í júlí síðastliðnum.
Í verkefninu fólst meðal annars endurnýjun á hitalögnum, hlaupabraut og gervigrasi. Sérstök áhersla var lögð á umhverfisþætti, en nýtt gervigras í Fífunni er án innfylliefna. Með þeirri lausn er Fífan orðin fyrsti gervigrasvöllur landsins í fullri stærð með innfyllilausu gervigrasi, sem dregur úr losun örplasts og fellur að nýjum reglum Evrópusambandsins þar sem notkun gúmmíkurls verður bönnuð frá árinu 2030.
Fífan er ein mest nýtta íþróttaaðstaða landsins og hýsir daglega fjölbreytta starfsemi frá morgni til kvölds. Endurbæturnar styrkja bæði gæði mannvirkisins og notendaupplifun, ekki síst fyrir hópa sem nýta aðstöðuna reglulega, svo sem eldri borgara og afreks- og almenningsíþróttir.
Verkís sinnti hönnun og verkefnastjórn ásamt eftirliti með framkvæmdunum í nánu samstarfi við verkkaupa og verktaka. Fagurverk sá um jarðvinnu og lagnir, Exton um lagningu gervigrass og Sport-Tæki um hlaupabrautina.
Verkefnið er gott dæmi um hvernig markvissar endurbætur og vandað eftirlit geta stuðlað að betri nýtingu mannvirkja, lengri líftíma og umhverfisvænni lausnum í opinberri uppbyggingu.
