Verkís tekur þátt í Arctic Circle 2019
Verkís tekur þátt í Arctic Circle 2019. Arctic Circle verður haldin í sjöunda skipti í Reykjavík dagana 10.-12. október.
Tveir af verkfræðingum Verkís flytja erindi í ár, annars vegar á málstofu á ráðstefnunni og hins vegar í einni af vettvangsferðunum sem boðið er upp á.
Markmið ráðstefnunnar er að auka þátttöku í umræðu og efla alþjóðlegt samstarf um framtíð Norðurslóða. Þingið er það stærsta og fjölþættasta hvað varðar málefni og framtíð Norðurslóða.
Ægir Jóhannsson, umhverfis- og byggingarverkfræðingur hjá Verkís, flytur erindi á málstofunni Responsible project management beyond the Arctic Circle. Þar mun hann fjalla um hönnun vatnaflsvirkjunarinnar í Ilulissat á Grænlandi.
Verkís annaðist alla deilihönnun við virkjunina sem er 22,5 MW og sér bænum Ilulissat með 4.500 íbúum hans fyrir rafmagni sem áður var aflað með díselolíu.
Virkjunin er innst í firðinum Qinngua Avannarleq, um 45 km norðaustan við bæinn en þangað er eingöngu
fært sjóleiðis, um 56 km leið á sumrin því fjörðinn leggur á vetrum. Á
framkvæmdartíma var á veturna notast við snjósleða til að komast síðasta
spölinn inn að virkjuninni.
Ilulissat er fyrsta vatnsaflsvirkjunin sem byggð er neðanjarðar í sífrera eftir því sem best er vitað, en á þessum slóðum nær hann tugi og jafnvel hundruð metra niður í jarðlögin. Hönnun á mörkum sífrera krafðist sértækra verkfræðilegra lausna og hugsunar þar sem fyrirkomulag réðist meðal annars af því að koma mannvirkjum sem mest fyrir neðan sífrerans.
Kristín Martha Hákonardóttir, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, verður með erindi um hönnun krapaflóðavarnargarða á Íslandi. Erindið er fyrsti áfangastaður í kynnisferðinni Innviðir í heimi veðurfarsöfga (e. Infrastructure in a world of extreme weather) sem boðið verður upp á sunnudaginn 13. október.
Kristín Martha mun kynna niðurstöður tilrauna og líkanreikninga af krapaflóðum. Tilraunirnar voru unnar á tilraunastofu, þar sem vatni var hleypt snögglega niður 10 metra langa og eins metra breiða braut og árekstur við ýmsar gerðir varnarmannvirkja við enda brautarinnar greindur. Tilgangurinn með tilraununum var að kanna möguleika á að stöðva krapaflóð með varnargörðum.
Krapaflóð falla þegar vatnsmettuð snjóþekja brýst fram, oft líkt og stífla bresti skyndilega. Slík flóð eru algeng á norðlægum breiddargráðum, s.s. í Noregi, Svíþjóð, Alaska og á Íslandi en einnig í Japan. Þau eru einnig orðin tíðari á suðlægari slóðum í Bandaríkjunum, Kanada og í Ölpunum í kjölfar hnattrænnar hlýnunar. Hraði krapaflóða er breytilegur en að jafnaði minni en hraði snjóflóða. Flóðin eru hins vegar þyngri og hrifsa með sér snjó, grjót og jarðveg og geta haft gríðarlegan eyðileggingakraft. Hreyfiþrýstingur í flóðunum getur orðið svipaður og í þurrum snjóflóðum. Almennt er hegðun flóðanna önnur en snjóflóða og því nauðsynlegt að rannsaka þau sérstaklega.
Tilraunirnar sem kynntar verða í erindinu voru unnar sem hluti af hönnun varnargarða til þess að stöðva krapaflóð ofan bæjanna Patreksfjarðar og Bíldudals á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar hafa krapaflóð af stærðinni 10-50 þúsund m³ farið í gegnum byggðirnar og út í sjó. Í janúar 1983 féll mannskætt krapaflóð úr Stekkagili/Geirseyrargili á Patreksfirði. Þrír létust í flóðinu og 16 hús skemmdust.