Verkís tekur næsta skref í nýtingu þrívíðra hönnunargagna
Verkís tekur næsta skref í nýtingu þrívíðra hönnunargagna. Verkís og Envalys hafa skrifað undir samning um samstarf um þróun á hugbúnaðarlausn sem býður m.a. upp á upplifun þrívíddarumhverfis í fjölþættu spurningaviðmóti í gegnum netvafra.
Með þessu tekur Verkís næsta skref í nýtingu þrívíðra hönnunargagna og gefur viðskiptavinum þannig kost á að upplifa hönnun á sem raunverulegastan hátt á tíma sem hentar hverjum og einum, og veita endurgjöf með skjótum og aðgengilegum hætti. Einnig má ná betri skilning á þeim sálfræðilegu áhrifum sem hönnun hefur á okkur og byggja þannig upp innviði og samfélög með meiri áherslu á sálfélagslega sjálfbærni.
Töluverðar breytingar hafa orðið á samskipta- og fundavenjum okkar síðastliðið árið vegna heimsfaraldurs. Ætla má að við munum halda í einhverjar af þessum breytingum, einfaldlega vegna þess að þær gera vinnuna markvissari og sveigjanlegri. Til að mynda er þægilegt fyrir viðskiptavini Verkís að geta skoðað hönnunartillögur þegar þeim hentar undir stafrænni handleiðslu hönnuðar.
Verkís vill alltaf bjóða viðskiptavinum sínum upp á bestu lausnina og því hefur stofan kannað hvernig hægt sé að færa viðskiptavinum sannfærandi þrívíddarupplifun með skjótum og skilvirkum hætti heim í stofu. Undanfarin ár hefur fyrirtækið verið leiðandi í innleiðingu og notkun þrívíddarhönnunartækni og vinnur náið með þróunarfyrirtækjum við frekari innleiðinga á nýstárlegum hugbúnaðarlausnum
Envalys er nýsköpunar- og ráðgjafafyrirtæki sem er sprottið úr rannsóknarumhverfi Háskólans í Reykjavík. Fyrirtækið vinnur að þróun hugbúnaðarlausnar, sem býður meðal annars upp á upplifun þrívíddarumhverfis yfir vefinn, og veitir sérhæfða ráðgjöf á sviði umhverfissálfræði, með það að markmiði að auka þekkingu og skilning á sálfræðilegu samspili fólks og umhverfis þess, og að kortleggja þá umhverfisþætti sem liggja til grundvallar sálfélagslegri sjálfbærni.
Auðna tæknitorg, sem kom að gerð samstarfssamningsins, er tækniyfirfærslustofa í eigu háskóla og rannsóknarumhverfisins á Íslandi. Eitt af hlutverkun tækniyfirfærslustofu eins og Auðnu er að aðstoða fyrirtæki sem hafa orðið til í háskólaumhverfinu.