26/03/2020

Verkís skrifar undir tvo rammasamninga í Noregi

Verkís skrifar undir tvo rammasamninga í Noregi
Nesodden sveitarfélag í Noregi

Verkís skrifar undir tvo rammasamninga í Noregi, annars vegar við sveitarfélagið Nesodden og hins vegar við endurvinnslufyrirtækið Romerike Avfallsforedlig IKS (ROAF). Fyrri samningurinn hljóðar upp á rúman milljarð íslenskra króna og seinni upp á hálfan milljarð íslenskra króna.

Samningurinn við Nesodden tekur til allrar verkfræði- og arkitektaþjónustu sem sveitarfélagið þarf á að halda á fjögurra ára tímabili. Nesodden er rétt fyrir utan Osló og þar búa um 20 þúsund íbúar.

Verkís hlaut hæstu einkunn í útboðinu af þeim þrettán verkfræðistofum sem tóku þátt. Tilboðin voru annars vegar metin eftir verkkunnáttu (hæfni mannskapsins sem boðinn er í verkið og reynslu) og hins vegar eftir verði. Fyrri þátturinn gilti 35% og seinni 65%. Verkís hlaut 10 stig af 10 mögulegum fyrir fyrri reynslu af sambærilegum verkum og 9,69 stig af 10 mögulegum fyrir verð. Samningurinn hljóðar upp á 80 milljónir norskra króna, eða rúman einn milljarð íslenskra króna.

Verkís er með tvo undirverktaka í verkinu, OP-Verkis sem er dótturfyrirtæki Verkís í Noregi og arkitektastofuna Terje Grønmo Arkitekter í Noregi.

Meðal þess sem samningurinn felur í sér er þjónusta vegna burðarþols, rafkerfa, lagnakerfa, hljóð, bruna, jarðtækni, bergtækni, umhverfisjarðefnafræði, straumfræði, landslagsarkitektúrs, vatns- og fráveitumála, umhverfismála, orkumála (orkusparnaður), skipulagsmála og öryggiskerfa. Þetta tekur meðal annars til mannvirkja í tengslum við hafnargerð, vegagerð, brúargerð, stíflur, hreinsistöðvar, íþróttahús, menningarhús, skóla, heilsubyggingar og fleira.

Seinni samningurinn er við endurvinnslufyrirtækið Romerike Avfallsforedling AS (ROAF) sem sér um efnissöfnun, flokkun, endurvinnslu og móttöku spilliefna fyrir um 200 þúsund manns í nokkrum sveitarfélögum í Noregi. Samningur er til tveggja ára með möguleika á framlengingu um önnur tvö ár.

Samningurinn hljóðar upp á 40 milljónir norskra króna, eða rúman hálfan milljarð íslenskra króna. Rammasamningurinn var gerður við fjögur fyrirtæki sem komu best út úr útboðinu. OP-Verkís er einnig undirverktaki Verkís í verkinu ásamt arkitektastofunni L2 Arkitekter í Noregi. Síðarnefnda fyrirtækið hefur mjög mikla reynslu af gerð endurvinnslustöðva.

Tilboðin voru metin á grundvelli verðs en til að komast í gegnum ferlið þurfi að sýna fram á hæfni og fyrirtækið hefði mannskap sem byggi yfir ákveðinni reynslu og fjölda starfsfólks. Verkefnin sem falla undir rammasamninginn ná til Samgöngu- og Umhverfissviðs, Iðnaðarsviðs og Byggingarsviðs Verkís. ROAF stefnir meðal annars á að stækka og endurnýja endurvinnslustöðvar á samningstímabilinu.

Verkís fagnar þessum samningum og hlakkar til að takast á við spennandi áskoranir á næstu árum.

Frétt Nesodden sveitarfélagsins um rammasamninginn 

Hvað er rammasamningur? Samningur sem einn eða fleiri kaupendur gera við eitt eða fleiri fyrirtæki í þeim tilgangi að slá föstum helstu skilmálum einstakra samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og fyrirhugað magn.

Verkís skrifar undir tvo rammasamninga í Noregi
Nesodden sveitarfélag í Noregi