18/10/2024

Verkís með tvo fyrirlestra á Autodesk University 2024 í San Diego

© www.autodesk.com

Verkís hélt tvo fyrirlestra á árlegri ráðstefnu Autodesk, sem haldin var í San Diego í vikunni. Ráðstefnan dregur til sín um 12 þúsund gesti og voru yfir 650 fyrirlestrar um margvísleg efni allt frá notkun á stafrænni hönnun og gervigreind í hönnun og framkvæmdum yfir í tölvuleikjahönnun og tæknibrellur í kvikmyndageiranum.

Annar fyrirlestur Verkís fjallaði um uppsetningu og rekstur innviðaverkefna í Autodesk Construction Cloud (ACC). Þar var farið í gegnum verkferla og uppsetningu sem þróuð var  í verkefni sem Verkís hefur unnið fyrir  ISAVIA á Keflavíkurflugvelli. Fyrir hönd Verkís fluttu byggingarverkfræðingarnir Péter Farkas og Ragnar Steinn Clausen fyrirlestur en með þeim var James Tuite frá Autodesk.

Ragnar Steinn Clausen, Péter Farkas og James Tuite

Hinn fyrirlesturinn var tileinkaður eldsumbrotunum á Reykjanesi, þar sem Verkís hannaði varnargarða til að vernda mannvirki gegn hraunflæði. Í fyrirlestrinum var farið yfir hraunflæðilíkön og hönnun varnargarða sem Verkís hefur þróað. Fyrirlesari var Hallgrímur Örn Arngrímsson, byggingarverkfræðingur.

Hallgrímur Örn flytur fyrirlestur sinn

Stefna Verkís er að vera í fararbroddi meðal verkfræðiráðgjafa í stafrænni hönnun, og þátttaka í leiðandi ráðstefnum sem þessari er mikilvægur þáttur í þeirri vegferð. Þar gefst tækifæri til að kynnast tækninýjungum og efla tengsl við sérfræðinga á alþjóðavettvangi.

Heimsmarkmið

© www.autodesk.com