Verkís kemur að umfangsmikilli jarðkönnun í Grindavík

Mikið samstarf sérfræðinga
Verkís hefur komið að kortlagningu jarðsprunga í Grindavík í kjölfar jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesskaga undanfarna mánuði. Skýrslan, sem nú hefur verið birt á vef almannavarna, var unnin fyrir Grindavíkurnefnd og Almannavarnir og byggir á mikilli vinnu sérfræðinga frá mörgum stofnunum og verkfræðistofum – þar á meðal Verkís, sem annaðist verkefnisstjórn og tók virkan þátt í mælingum og greiningum á svæðinu.
Fjölmargar sprungur undir yfirborðinu
Hallgrímur Örn Arngrímsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, er verkefnisstjóri jarðkönnunarinnar. Í viðtali við RÚV segir hann kortlagninguna hafa leitt í ljós fjölmargar sprungur sem ekki voru sjáanlegar á yfirborði.
„Svo sáum við líka að umfangið á sprungunum, eftir því sem við opnuðum fleiri staði, var miklu meira en maður gerði sér grein fyrir,“ segir Hallgrímur.
Nýjustu rannsóknir leiddu meðal annars í ljós stóreflis holrými undir fótboltavelli vestan við Hópið – holrými sem eru sýnileg á loftmyndum allt frá árinu 1954.
Sjö sprungubelti og djúp holrými
Í heildina fundust sjö sprungubelti í bænum. Stærstu sprungurnar eru Stamphólsgjá í miðbænum og Hópsprunga, auk fjölda minni sprungna í austurhluta bæjarins. Meðalbreidd sprungnanna er um 80 sentímetrar og dýptin oft á bilinu fimm til sex metrar. Stærstu holrýmin ná niður á 30 metra dýpi og eru allt að fimm metra breið.
Mikilvægar forsendur til framtíðar
Þessi kortlagning veitir mikilvægar forsendur til frekari ákvarðanatöku um viðgerðir og uppbyggingu í Grindavík. Nú er unnið að næsta áfanga jarðkönnunar, sem felst í því að rannsaka svæði utan þéttbýlis, þar sem ferðamannastaðir eru víða. Einnig nýtist skýrslan við vinnu við aðalskipulag og deiliskipulag fyrir framtíðarbæjarhluta Grindavíkur.
Traustar undirstöður fyrir endurreisn
Verkís er stolt af því að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni í samstarfi við Ísor, Eflu, Jarðvísindastofnun Háskólans, Vegagerðina og fleiri aðila. Markmiðið er skýrt: að tryggja öryggi íbúa og byggja upp traustar undirstöður fyrir endurreisn bæjarins.