Verkís í samstarfi við Mace vegna stækkunar Keflavíkurflugvallar
Verkís í samstarfi við Mace vegna stækkunar Keflavíkurflugvallar. Isavia hefur gert langtímasamning við breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace um verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna fyrirhugaðra framkvæmda við stækkun Keflavíkurflugvallar. Mace valdi Verkís verkfræðistofu til samstarfs vegna verkefnisins.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia og Jason Millett, rekstrarstjóri Mace, undirrituðu samninginn á Keflavíkurflugvelli í gær.
Útboðsferlið til að velja hæfan samstarfsaðila í þau stóru verkefni sem framundan eru á Keflavíkurflugvelli hefur verið mjög ítarlegt og staðið yfir í rúmt ár. Gerð var krafa um yfirgripsmikla þekkingu og reynslu bjóðenda hvað varðar sambærileg verkefni á stórum alþjóðlegum millilandaflugvöllum. Gerð var krafa um að bjóðendur yrðu á líftíma samningsins í samstarfi við innlendan aðila og valdi félagið Mace Verkís verkfræðistofu til samstarfsins.
Mace mun annast verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna komandi framkvæmda við m.a. byggingu austurálmu sem er nýr landgangur til austurs og byggingu á nýrri flugstöðvarbyggingu. Þá mun félagið einnig veita ráðgjöf við aðrar framkvæmdir Isavia á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal við tengibyggingu vegna breikkunar á landgangi milli norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar.
Verkís mun aðstoða Mace á ýmsum sviðum í þessari vinnu sem framundan er, en fyrst um sinn mun starfsfólk Verkís leiða vinnu við gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlana fyrir heildarverkefnið og aðstoða Isavia við skipulag og framkvæmd innkaupaferlis til að velja alþjóðlegan hönnunarhóp fyrir stækkunina.
Fyrsta verkefni félagsins verður að veita ráðgjöf við tengibygginguna en ráðgert er að framkvæmdir við hana muni hefjast á næsta ár. Enn er talsvert í að framkvæmdir við austurálmu og nýja flugstöð geti hafist enda kalla framkvæmdir af þeirri stærðargráðu á nokkurra ára undirbúningsvinnu.
Verkís hefur frá upphafi unnið við hönnun Keflavíkurflugvallar.