Verkís á HYDRO 2025
Alþjóðlegur vettvangur fyrir vatnsaflsgeirann
HYDRO ráðstefnan er einn helsti vettvangur heims fyrir fyrirtæki og sérfræðinga sem starfa á sviði vatnsafls og endurnýjanlegrar orku. Ísland hefur tekið virkan þátt í ráðstefnunni um árabil og var engin undantekning í ár, þegar hún fór fram dagana 22.–24. október í Thessaloniki í Grikklandi.
Verkís hluti af íslenska hópnum
Að þessu sinni tóku Hlín Vala Aðalsteinsdóttir og Ívar Sveinsson, vélaverkfræðingar, þátt fyrir hönd Verkís, en íslenski hópurinn var undir merkjum Green by Iceland.
Landsvirkjun var með kynningu á básnum og kynnti þar verkefni sín og reynslu á sviði vatnsaflsvirkjana. Ísland var jafnframt eina landið með eigin þjóðarbás, þar sem dregið var fram leiðandi hlutverk landsins í jarðhita og vatnsafli.
Fleiri íslensk fyrirtæki áttu einnig fulltrúa á ráðstefnunni, meðal annars EFLA, COWI, HS Orka og Orkusalan.
„Þetta var mjög skemmtileg og fróðleg ferð,“ segir Hlín Vala Aðalsteinsdóttir, vélaverkfræðingur hjá Verkís.
Nýjustu lausnir og tækni kynntar
HYDRO er árlegur vettvangur þar sem kynntar eru nýjustu lausnir, rannsóknir og tækniþróun á sviði vatnsaflsvirkjana. Þar koma saman fulltrúar orkufyrirtækja, ráðgjafa, hönnuða og tæknifyrirtækja víðs vegar að úr heiminum til að miðla reynslu, ræða áskoranir og móta framtíðarsýn í þessum mikilvæga hluta orkugeirans.
Framsækið orkuhagkerfi Íslands vekur athygli
Orðspor Íslands sem framsækins samfélags sem nýtir endurnýjanlega orku á sjálfbæran hátt er vel þekkt á alþjóðavettvangi. Á íslenska básnum í Thessaloniki var lögð áhersla á hvernig samvinna fyrirtækja og þekkingarumhverfi landsins hefur gert Íslandi kleift að byggja upp eitt öflugasta orkuhagkerfi heims.
HYDRO 2026 haldin á Ítalíu
Ráðstefnan fór í fyrra fram í Graz í Austurríki, en að ári verður hún haldin í Bologna á Ítalíu.
