Varnir mikilvægra innviða á Reykjanesi
Varnir mikilvægra innviða á Reykjanesi. Verkís hefur ásamt samstarfsaðilum unnið að verkefni um varnir mikilvægra inniviða á Reykjanesi. Verkefnið hófst fyrrihluta marsmánaðar áður en gjósa tók í Geldingadölum.
Markmiðið var að taka saman yfirlit yfir mikilvæga innviði á Reykjanesi, skoða þá hættu sem gæti skapast ef hraun fer að renna nálægt þessum innviðum og þær varnaraðgerðir sem æskilegar væru.
Fjallað var um málið í Speglinum á Rás 1 mánudaginn 17. apríl og á heimasíðu RÚV.
„Það er vísbending um að Reykjanesið sé að lifna við aftur. Þetta er mjög stórt svæði sem getur verið virkt þannig að núna erum við að kortleggja alla innviði sem eru á svæðinu sem geta mögulega verið í hættu vegna hraunrennslis,“ sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, í Speglinum. Hann sagði að svæðið nái frá Reykjanestá og að Henglinum. „Við erum að horfa á samgöngumannvirki, raforku- og fjarskiptamannvirki og veitumannvirki eða allt sem hjálpar okkur með daglegt líf.“
Búið er að gera hermanir í reiknilíkani af hugsanlegu hraunrennsli og hvaða svæði og innviðir gætu verið í hættu. Þá hafa verið gerð drög að hönnun varnarmannvirkja sem væri hægt að setja upp eftir upphaf atburðar eða sem forvarnaraðgerð fyrir atburð.
„Það er til skoðunar að setja upp garða snemma eða löngu áður en það byrjar að gjósa. Hugsa fyrir því hvaða mannvirki og innviði við viljum vernda. Setja eitthvað í landslagið nú þegar til að hjálpa okkur að verja þessa hluti,“ sagði Rögnvaldur. Varnargarður gætu til dæmis verið settir upp fyrir ofan Grindavík til að verja bæinn og við Svartsengi. Rögnvaldur ítrekar þó að enn hafi ekkert verið ákveðið.
„Eitt af því sem við höfum talað um að gera er hreinlega að prófa að setja upp varnargarða eða leiðigarða í núverandi gosi til að kanna hvort þetta sé hægt og hvort þetta virki. Búa til þekkingu og reynslu í leiðinni,“ segir Rögnvaldur. Til greina kemur að setja slíka garða upp í Meradölum þar sem hraun er byrjað að renna þó ekki séu taldar miklar líkur á að það nái að renna niður að Suðurstrandarvegi.
Þessi aðferð, að nýta varnargarða til að stýra hraunstraumi og verja mannvirki er þekkt víða um heim þar sem eldvirkni er og voru varnargarðar m.a. reistir þegar gaus í Vestmanneyjum árið 1973. Hefur teymið m.a. nýtt sér reynslu við vinnu þar fyrir tæplega 50 árum við undirbúning á Reykjanesi.
Á Reykjanesskaga snýst málið um að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum til að vera við öllu búin. Til dæmis hafa helstu stærri vinnuvélar á suðvesturhorni landsins verið skráðar til að auðvelt verði að nálgast þær með stuttum fyrirvara. Rögnvaldur segir að þessi ráðstöfun sé aðeins hluti af því að verja innviði.
„Ef við þurfum að fara í þessi verkefni þá getur þetta þurft að gerast mjög hratt. Þá er gott að eiga þessar upplýsingar. Við erum búin að skrá helstu vinnuvélar, stærð þeirra, getu og hvar þær eru þannig að það sé hægt að senda þær á staðinn með hraði ef á þarf að halda.“
Umfjöllun Rásar 1:
Íhuga að stýra hrauninu með varnargörðum | RÚV (ruv.is)