03/12/2018

Útvarpsreitur við Efstaleiti

Útvarpsreitur við Efstaleiti
Útvarpsreitur

Útvarpsreitur við Efstaleiti. Verkís hefur haft eftirlit með öllum framkvæmdum á svæðinu utan byggingu húsa.

Framkvæmdir vegna þéttingar byggðar á svokölluðum Útvarpsreit hafa verið í fullum gangi að undanförnu, þær hafa m.a. haft í för með sér gerð gatna, bílastæða, færslu á stofnæð hitaveitu, lagningu og endurnýjun lagna.

Gerð eru ný bílastæði austan og norðan við Útvarpshúsið og vestursvæði endurnýjað. Á vestursvæði eru byggðir stoðveggir með lýsingu sem hönnuð var af lýsingarhönnuðum Verkís.

Stofnæð hitaveitu, Reykjaæð, þurfti að færa ásamt því að tengibrunnar á svæðinu voru fjarlægðir. Lagnir vatnsveitu voru endurnýjaðar og nýjar stofnlagnir vegna byggðar lagðar. Fráveita á svæðinu var endurnýjuð og nýtt fráveitukerfi byggt. Lagnir fjarskiptafyrirtækja voru færðar og lagðar nýjar. Vinna við færslu Reykjaæðar var umfangsmeiri en reiknað hafði verið með vegna mun meiri fleygunar en hönnuðir höfðu gert ráð fyrir. Vinna við fleygun var tímafrek þar sem ekki var leyfilegt að fleyga nema á ákveðnum tímum í samráði við RÚV.

Framkvæmdir hófust í október 2016 og var stórum hluta þeirra lokið sumarið 2018 þó svo að lagnir og gerð gangstétta í síðasta áfanga verksins verði ekki lokið fyrr en í maí 2019.
Gerðar hafa verið tvær götur, annars vegar Jarðarleiti sunnan við RÚV og hins vegar Lágaleiti sem tengir hverfið við Háaleitisbraut og Efstaleiti.

Verkkaupar eru Reykjavíkurborg, Veitur, Ríkisútvarpið, Gagnaveita Reykjavíkur, Skuggi 4 og Míla.
Á byggingarreitnum við RÚV munu rísa alls um 360 íbúðir sem Skuggi byggir. Fyrstu íbúðir hafa verið afhentar og fyrstu íbúar fluttir inn.

Útvarpsreitur við Efstaleiti
Útvarpsreitur