Útrýming geirfuglsins fyrst og fremst manninum að kenna
Útrýming geirfuglsins. Ekki er talið að geirfuglinn hafi verið í útrýmingarhættu áður en mikil aukning varð á veiðum á honum á 16. öldinni og því hafi útrýming geirfuglsins fyrst og fremst verið manninum að kenna. Það sýnir að stórir stofnar geta verið viðkvæmir fyrir mikilli staðbundinni nýtingu ef henni er ekki stýrt.
Talið er að milljónir geirfugla hafi verið að finna á útbreiðslusvæði hans í Norður-Atlantshafi þegar mest var en á miðri 19. öldinni höfðu þeir dáið út. Geirfuglar voru ófleygir og því auðveld bráð manna og hafa eflaust verið veiddir frá því að menn gátu komist á fleytum í varplendur þeirra.
Talið er að veiðar á geirfuglum hafi aukist mikið snemma á 16. öld með bættum siglingum en sjómenn sóttu í nýmetið á fjarlægum fiskimiðum. Einnig varð dúnn geirfuglsins eftirsóttur sem söluvara.
Þetta eru niðurstöður fræðigreinar sem Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur og Vigfús Arnar Jósefsson, vélaverkfræðingur hjá Verkís eru meðhöfundar að. Greinin Demographic reconstruction from ancient DNA supports rapid extinction of the great auk er samstarf vísindamanna víða um heim.
Flöskuskeyti Verkís komu vísindafólki á sporið
Vísindafólkið kannaði áhrif veiða manna á geirfuglinn með því að skoða erfðaefni fuglsins úr hömum og beinum. Erfðaefnið var síðan notað til greininga á því hverjar líkur væru á að stofninn dæi út á ákveðnu árabili. Rannsókn þessi hófst sem doktorsverkefni Dr. Jessicu Thomas við Bangor háskóla í Wales.
Niðurstöður greiningarinnar bentu til þess að stofninn hafi verið stöðugur þar til veiðar jukust á 16. öld og þá hafi þær farið umfram það sem stofninn gat staðið undir, sem endaði með útrýmingu þegar síðasta varpparið var drepið í Eldey 3. júní árið 1844.
Eitt af því sem kom í ljós við greiningu á erfðaefninu er að þrátt fyrir mjög víðfemt útbreiðslusvæði geirfuglsins virðist sem heildarstofninn hafi verið tiltölulega einsleitur miðað við geirfuglinn gat ekki flogið. Því hefði mátt búast við að hann stæði saman af af nokkrum einangruðum undirstofnum.
Það voru ferðir „flöskuskeyta“ Verkís og Ævars vísindamanns á heimasíðu Verkís sem komu Dr. Jessicu og samstarfsfólki hennar á sporið.
Tveimur skeytum með GPS-móttökutækjum og gervihnattasendum var hent í sjóinn nálægt Eldey með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar, sunnudaginn 10. janúar 2016. Eldey var síðasta vígi geirfuglsins og hún ásamt Geirfuglaskeri voru stærstu varpstöðvar geirfugla hér við land.
Flöskuskeytin flutu um heimsins höf undir áhrifum vinda, hafalda og hafstrauma þar til þau tóku land rúmu ári seinna, annað á eynni Tiree undan vesturstönd Skotlands 15. janúar 2017 og hitt á Sandey í Færeyjum 13. maí sama ár. Á ferð sinni um höfin höfðu þau siglt framhjá Funk eyju við Nýfundnaland og framhjá Sankti Kildu, vestur af Skotlandi og fleiri líklegum varpstöðvum geirfugla, líkt og sjá má á myndinni hér fyrir ofan og á vefkorti Verkís .
Annað flöskuskeyti sem sett var í sjó miðja vegu milli Íslands og Færeyja í samvinnu við Atla Svavarsson 20. júlí 2018 endaði í fjöru við Berlevåg nyrst í Noregi, þar sem segja má að norðurmörk útbreiðslu geirfugla hafi verið samkvæmt myndinni hér að neðan.
Líklegt er að sömu kraftar hafi ráðið ferðum geirfugla um Norðu-Atlantshafið, þeir hafi rekið með straumum, öldum og vindum og þannig flust milli svæða og það hafi stuðlað að blöndun stofna og einsleitara erfðaefni en ella.
Fuglinn sem gat ekki flogið
Geirfuglinn var stærstur fugla af ætt svartfugla. Hann var um 70-80 cm á hæð og um 5 kg að þyngd og var ófleygur. Segja má að hann hafi verið mörgæs norðurhvels jarðar samanber latneska heitið Pinguinus impennis, en það er dregið af enska heitinu penguin og franska heitinu pingouin sem þýðir mörgæs. Líkt og hjá mörgæsum voru vængir geirfuglsins hlutfallslega litlir og notaði geirfuglinn þá til að „fljúga“ í kafi, líkt og ættingjar hans svartfuglar gera svo og mörgæsirnar.
Fæða geirfugla var fiskur og væntanlega krabbadýr og urpu þeir í þéttum byggðum á eyjum og í fuglabjörgum líkt og svartfuglar gera þar sem vörn hefur verið fyrir afráni refa og annarra landrándýra. Geirfuglinn var útbreiddur um Norður Atlantshafið (sjá kort hér fyrir neðan) og var stærsti þekkti varpstaður hans Funk eyja undan austurströnd Nýfundnalands við gjöful fiskimið Miklabanka (Grand banks). Á Íslandi var Geirfuglasker líklega stærsti varpstaður geirfugla.
Geirfuglasker var eitt af skerjum í skerjaklasa miklum suðvestur af Reykjanesi sem kallast Fuglasker eða Eldeyjar og er Eldey innst þessara skerja eða eyja. Geirfuglasker sökk í sæ að mestu í eldsumbrotum 1830 en geirfuglar urpu einnig í Eldey, sem var síðasti þekkti varpstaður geirfugla.
Eldey er þekktust í dag fyrir mikið og þétt súluvarp, auk þess sem svartfuglar og ritur verpa þar í björgum. Í Eldey er vefmyndavél þar sem fylgjast má með súlum í beinni útsendingu.