Tvö lýsingarverkefni hönnuð af Verkís tilnefnd til verðlauna
Tvö lýsingarverkefni hönnuð af Verkís tilnefnd til verðlauna. Tvö nýleg lýsingarverkefni unnin af Verkís í samvinnu við arkitektastofur hafa verið tilnefnd til Darc Awards. Þetta er annars vegar verkefnið Óðinstorg og hins vegar Stapaskóli. Úrslit verða tilkynnt í vor.
Það eru tímaritin arc og darc sem standa fyrir verðlaununum en þau fjalla um hönnun, arkitektúr og lýsingu. Þegar dómnefnd hefur tilnefnt ljósaverk til þátttöku eru vinningshafar í hverjum flokki endanlega valdir af 1.600 hönnuðum og arkitektum.
Óðinstorg
Á Íslandi eru vetur langir og dimmir og því skiptir sköpum að hugað sé að lýsingu á torgi eins og Óðinstorgi sem er í hjarta borgarinnar. Verkís hannaði lýsingu torgsins og samvinnu við Basalt arkitekta með íslenskar árstíðir í huga. Lýsingin var meðal þess sem réði úrslitum um hver fékk verkið þegar Óðinstorg fór í útboð hjá borginni.
Horft var til þess að torgið væri aðlaðandi jafnt í dagsbirtu sem rökkri. Mikilvægt var að birtan félli vel að umhverfinu. Tilgangurinn með lýsingunni er að skapa aðlaðandi andrúmsloft jafnvel þegar vetur konungur ræður ríkjum. Lýsingin á Óðinstorgi er því breytileg eftir árstíma og tíma dags.
Í tímariti arc frá febrúar/mars er viðtal við Darío Gustavo Salazar, lýsingarhönnuð hjá Verkís, um Óðinstorg.
Stapaskóli
Verkís hannaði lýsingu skólans í samvinnu við Arkís arkitekta. Hugmyndin með lýsingarhönnuninni fyrir Stapaskóla var að skapa sveigjanlega lýsingu fyrir nemendur og kennara, en lýsingin var einnig hönnuð til að hafa áhrif á hegðun nemenda og skapa jafnvægi milli virkra og rólegra svæða.
Einnig var lögð áherslu á að raflýsing og dagsbirta vinni vel saman. Lýsing var notuð til að leggja áherslu á arkitektúrinn, en með því að leggja áherslu á efnivið, liti og uppbyggingu með lýsingu verður arkitektúrinn sýnilegri.
Stapaskoli, Iceland – darc awards
Frétt á vef Reykjavíkurborgar: Lýsing á Óðinstorgi tilnefnd til verðlauna