Tíu húsfélög hafa fengið styrk vegna hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla
Tíu húsfélög hafa fengið styrk vegna hleðsluaðstöðu fyrir rafbíla. Tæplega 13,5 milljón hefur verið úthlutað úr styrktarsjóði til tíu húsfélaga í Reykjavík á þessu ári vegna uppsetningu hleðslubúnaðar á lóðum fjöleignarhúsa. Stjórnarfrumvarp félags- og barnamálaráðherra sem miðar að því að auðvelda einstaklingum að setja upp rafhleðslustöðvar í fjöleignarhús var birt á vef Alþingis í síðustu viku.
Í ár og næstu tvö ár leggja Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur 20 milljónir hvor í sjóð sem úthlutar styrkjunum, eða samtals 120 milljónir. Þetta er liður í stórfelldri uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur.
Tæplega tuttugu umsóknir um styrk höfðu borist um miðjan desember. Tíu húsfélög hafa fengið umsóknir sínar samþykktar en nokkur bíða afgreiðslu. Þá hefur fimm umsóknum verið hafnað þar sem þær uppfylltu ekki skilyrði reglna um styrkveitingar, ýmist þar sem bílastæðin eru í einkaeigu eða í eigu leigufélaga. Styrkirnir eru greiddir þegar framkvæmdum er lokið. Mörg húsfélög hafa leitað til Verkís á árinu vegna aðstoðar við gerð umsóknar um styrk í sjóðinn.
Lægsta upphæðin sem úthlutað hefur verið til húsfélags er 775.726 þúsund krónur. Hæsta upphæðin er 1.500.000 krónur, sem er jafnframt hámarksupphæð til hvers húsfélags. Greidd upphæð skal ekki nema meira en 67% af heildarkostnaði verksins með virðisaukaskatti.
Ekki eru sérstakir frestir til umsókna heldur eru þær afgreiddar og styrkjum úthlutað í þeirri röð sem þær berast. Í reglunum er þó sú undantekning að frá birtingu þeirra í sumar var gefinn frestur til umsókna til 1. september og var umsóknum innan þess tímabils forgangsraðað eftir fjölda hleðslustaða og kostnaði.
Vilja fjarlægja flöskuháls rafbíla með nýju frumvarpi
Stjórnarfrumvarp félags- og barnamálaráðherra sem miðar að því að auðvelda einstaklingum að setja upp rafhleðslustöðvar í fjöleignarhús var birt á vef Alþingis í síðustu viku.
Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, sat í nefndinni sem vann að frumvarpinu en hann telur að það sé mikil réttarbót og framför, líkt og kom fram í viðtali við hann í Morgunblaðinu í gær. Frumvarpið getur leitt til þess að rafbílaeigendum sé gert hærra undir höfði en öðrum en hingað til hafi þröngar reglur um breytingar á bílastæðum gert orkuskiptum bílaflotans erfitt fyrir.
„Með þessu er verið að opna fjöleignarhús fyrir rafbílum, þarna er verið að taka burt flöskuháls sem ella hefði staðið þessum orkuskiptum fyrir þrifum,“ sagði Sigurður í viðtalinu. Eins og staðan er í dag þarf samþykki allra eigenda að húsnæði að liggja fyrir svo hægt sé að ráðast í uppsetningu á hleðslustöð fyrir rafbíla á sameiginlegri lóð þótt bílastæðið sé eftir sem áður notað sem almennt bílastæði. Ef einskorða á notkun tiltekins bílastæðis við hleðslu rafbíla þarf samþykki allra eigenda til. Verði frumvarpið samþykkt breytist þetta og húsfélagi fjöleignarhúss verður skylt að úthluta sérstökum bílastæðum undir hleðslubúnað fyrir rafmagnsbíla.
Sigurður sagði í samtali við Morgunblaðið að staðan eins og hún er í dag sé stórhættuleg þar sem rafbílaeigendur sem búi í fjöleignarhúsum þurfi að fara krókaleiðir til þess að tengja bíla sína við rafmagn en það geti skapað áhættu. Sigurður Helgi fjallaði um rafbílavæðingu fjöleignarhúsa og lögfræðileg álitaefni á hádegisfræðslufundi Verkís um hleðslu rafbíla fyrr á þessu ári en þá var frumvarpið enn í smíðum.
„Þar var sagt frá dæmum um það að bílar hefðu brunnið og kviknað í húsum. Þeir töldu að það væri bara tímaspursmál hvenær kviknaði í bíl í stórum bílakjallara og þá væri voðinn vís,“ sagði Sigurður og vísaði þar til tveggja erinda Verkís á fræðslufundinum.
Í viðtalinu við Sigurð í Morgunblaðinu kemur einnig fram að aðrir eigendur en sá sem óskar eftir hleðslustöð muni í einhverjum tilfellum þurfa að greiða hluta kostnaðarins, verði frumvarpið að lögum í núverandi mynd.
Með þessu sé vissulega verið að veita einum hópi, rafbílaeigendunum, forréttindi umfram aðra hópa. „Þarna er verið að skipta takmörkuðum gæðum og veita einhverjum forgöngu en þetta er nauðsynlegt til þess að fyrirætlanir um orkuskipti nái fram að ganga,“ sagði Sigurður einnig.
Leggja til fulla endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna heimahleðslustöðva
Stjórnarfrumvarp fjármála- og efnahagráðsherra um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, rafmagnsreiðhjóla og annarra reiðhjóla verður tekið til þriðju umræðu á Alþingi í dag.
Við gerð frumvarpsins voru umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi en það hefur það að meginmarkmiði að greiða fyrir orkuskiptum og vistvænum samgöngum með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Orkuskiptum fylgir kostnaður við heimahleðslustöðvar sem mörg heimili huga nú að. Í frumvarpinu er lagt til að kostnaðurinn minnki verulega með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts af bæði efni og vinnu.
Þjónusta Verkís á sviði hleðslu rafbíla
Hleðsla rafbíla – Bæklingur
Uppfært 27. janúar 2020
Þann 18. janúar sl. greindi Morgunblaðið frá því að allt hafi um 19,5 milljónum króna verið úthlutað úr styrktarsjóði til fjórtán húsfélaga í Reykjavík á síðasta ári.
Við vinnslu þessarar fréttar sem upphaflega var birt var 17. desember sl. fengust þær upplýsingar að tæplega 13,5 milljón hefur verið úthlutað úr styrktarsjóði til tíu húsfélaga í Reykjavík það árið vegna uppsetningu hleðslubúnaðar á lóðum fjöleignarhúsa. Þá biðu nokkrar umsóknir afgreiðslu.
Hafa því fjórar umsóknir verið afgreiddar í lok árs eftir að Verkís aflaði upplýsinga um sjóðinn, hver um sig fyrir styrk að upphæð 1,5 milljón, sem er hæsti mögulegi styrkur.
Frétt mbl.is: Fjórtán fengu styrk fyrir hleðslustöðvar
Allar umsóknir sem Verkís hefur unnið fyrir húsfélög vegna umsóknar um styrk í sjóðinn hafa verið samþykktar.