Þrjú spennandi eftirlitsverkefni
Þrjú spennandi eftirlitsverkefni. Þessa dagana sinna sérfræðingar okkar á Byggingarsviði og Orkusviði að eftirlitsverkefnum víðs vegar um landið. Þar má nefna eftirlit með uppsetningu og prófunum á rofa-, stjórn- og varnarbúnaði í tengivirkjum í Skagafirði, eftirlit með lagningu háspennustrengja í jörðu í austurhluta Reykjavíkurborgar og eftirlit vegna byggingar tengivirkis á Hnappavöllum í Öræfum.
Auka afhendingaröryggi í Skagafirði
Vegna áforma um aukna orkunotkun á Sauðárkróki er verið að styrkja tengingu svæðisins við flutningskerfið og auka orkuafhendingu og afhendingaröryggi með því að leggja 66 kV jarðstreng, Sauðárkrókslínu 2, frá Varmahlíð á Sauðárkrók. Verkið er komið vel á veg en fyrir nokkrum dögum hófst útdráttur á jarðstrengnum.
Samhliða lagningu strengsins er verið að byggja tvö ný tengivirki, annars vegar yfirbyggt 66 kV, fjögurra rofareita tengivirki á Sauðárkróki og hins vegar yfirbyggt 66 kV, fimm rofareita tengivirki í Varmahlíð. Verkís annast eftirlit með uppsetningu og prófunum á 72,5 kV GIS rofabúnaði, stjórn- og varnarbúnaði og öðrum hjálparbúnaði í nýju tengivirkjunum. Áætlað er að línan komist í rekstur á þessu ári.
Tengivirkið í Varmahlíð verður reist á lóð núverandi virkis. Hér fyrir ofan má sjá loftmynd af svæðinu.
Verkís annast einnig hönnun, verkefnastjórn, gerð útboðsgagna fyrir alla verkþætti og kostnaðaráætlana, aðstoð við samningsgerð, hönnunareftirlit og aðstoð á verktíma vegna tengivirkjanna tveggja.
Verkefni: Tengivirki Sauðárkrókur
Verkefni: Tengivirki Varmahlíð
Færa Korpulínu 1 í jörðu
Unnið er að breytingu á legu Korpulínu 1 frá tengivirki við Geitháls að tengivirki við Korpu við Vesturlandsveg ásamt lítilsháttar færslu á legu Rauðavatnslínu 1. Með breytingunni er áformað að færa Korpulínu 1 að mestu leyti í jörðu.
Breytt lega Korpulínu og lagning í jörð er einkum komin til vegna breytts skipulags í Úlfarsárdal, m.a. vegna íbúðabyggðar í Úlfarsfelli og við Leirtjörn og einnig vegna nýs kirkjugarðs. Þannig varða háspennulínurnar sem liggja á milli tengivirkjanna færðar til og lagðar að mestu leyti í jörðu.
Verkís annast eftirlit með jarðvinnu vegna lagningu strengjanna (132 kV) og eftirlit með uppsetningu á 132 kV endabúnaði í tengivirkjunum. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá áætlaða línuleið.
Byggja nýtt tengivirki á Hnappavöllum
Vegna uppbyggingar ferðaþjónustu í Öræfa- og Suðursveit hefur Rarik óskað eftir því að nýr afhendingarstaður raforku verði búinn til á byggðalínuna í Öræfum, í nálægð við Fagurhólsmýri og Hnappavelli.
Landsnet er að byggja yfirbyggt tengivirkið sem verður með þremur 145 kV GIS rofabúnaði. Áætlað er að tengivirkið verði tekið seinni hluta árs 2020. Verkís annast verkeftirlit með öllum þáttum framkvæmdarinnar.