Þeistareykjavirkjun hlýtur alþjóðleg verðlaun
Þeistareykjavirkjun hlýtur alþjóðleg verðlaun. Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hlaut hin virtu verðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga – IPMA Global Project Excellence Award. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Tilkynnt var um vinningshafa á þrítugasta og fyrsta heimsþingi IPMA í Mexíkó í október.
Landsvirkjun sendi inn umsókn um þátttöku í samkeppninni í mars á þessu ári og í framhaldinu kom fimm manna sendinefnd á vegum IPMA til landsins til að taka verkefnið út. Úttektinni fólst meðal annars í heimsókn á Þeistareyki og ítarlegum samtölum við bæði og innri og ytri hagsmunaaðila verkefnisins.
Alþjóðleg nefnd dómara hefur þegar yfirfarið matsniðurstöður allra verkefna sem tóku þátt og tilnefndi verkefnastjórnun Þeistareykjavirkjunar til úrslita, ásamt fimm öðrum líkt og kemur fram í frétt á vef Landsvirkjunar.
Verkís tók þátt í verkefnisstjórn verkefnisins ásamt Mannviti en fyrirtækin sáu um verkfræðilega hönnun verkefnisins og hönnunarstjórn. Árni Gunnarsson og Valur Knútsson, verkfræðingar hjá Landsvirkjun, voru yfirverkefnisstjórar en Yrsa Sigurðardóttir frá Verkís og verkefnisstjóri frá Mannviti önnuðust verkefnastjórn við hönnun og útboð á hinum ýmsu þáttum virkjunarinnar.
Páll R. Guðmundsson, byggingarverkfræðingur, sat ennfremur í stýrihóp verkefnisins fyrir hönd Verkís og Sigurður Guðjónsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís og Snæbjörn Jónsson, rafmagnsverkfræðingur hjá Verkís, eru meðal þeirra sem sátu í hönnunarstjórn.
Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöðin sem Landsvirkjun hefur byggt frá grunni en hún samanstendur af tveimur 45 MW vélasamstæðum og er því alls 90 MW. Frá upphafi hönnunar og undirbúnings að uppbyggingu stöðvarinnar var meginmarkmiðið að reisa hagkvæma og áreiðanlega aflstöð sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru.
Uppfært 3. október 2019:
Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hefur hlotið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga – IPMA Global Project Excellence Award. Verkís óskar Landsvirkjun til hamingju með verðlaunin.
Fyrirsögn fréttarinnar var áður Þeistareykjavirkjun tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna en var breytt eftir að í ljós kom að Landsvirkjun hlaut verðlaunin.