Sumarstarfsfólkið okkar kvatt
Sumarstarfsfólkið okkar kvatt. Þessa dagana hverfur sumarstarfsfólkið okkar hvert af öðru aftur til náms. Þau sinntu fjölbreyttum verkefnum síðustu mánuði og það var okkur mikil ánægja og lærdómur að hafa þessa hæfileikaríku einstaklinga í starfsmannahópi Verkís.
Þau Björn Freyr Gíslason, Davíð Gunnarsson, Eiríkur Ingi
Jónsson, Magdalena Guðrún Bryndísardóttir og Silja Björk Axelsdóttir gefa okkur
innsýn í störf þeirra í sumar en öll munu þau starfa áfram hjá Verkís í vetur.
Björn Freyr Gíslason, B.Sc. í umhverfis- og byggingarverkfræði, var starfsmaður í framkvæmda og eftirlitshópi á Byggingasviði og aðstoðaði við eftirlit með nýbyggingu
Alþingis ásamt umsjón og eftirliti með Helgafellslandinu í Mosfellsbæ.
„Það sem stóð upp úr var eftirlitsstarfið á Alþingi.
Byggingin er skemmtilega hönnuð með háum veggjum, mikið af sjónsteypu og stórum
bitum sem gerir bygginguna krefjandi og einstaklega áhugaverða.“
„Mitt hlutverk var að sinna eftirliti sem felur í sér að
gæta hagsmuna verkkaupa. Þau verkefni sem því fylgja eru meðal annars úttektir,
magntökur, samskipti við verktaka, verkkaupa og hönnuði, efnissamþykktir og fundagerðir ásamt fleiru. Þetta sumar hefur verið lærdómsríkt og eflt mig í
starfi og gefið mér betri sýn á framgang mála í stærri verkum.“
Davíð Gunnarsson, B.Sc. í umhverfis- og byggingarverkfræði, aðstoðaði í verkefnum á sviði innviða
við hönnun flugvalla, gatna og vega á Samgöngu- og umhverfissviði. Hann kom að margvíslegum verkefnum í sumar tengd samgöngum og umhverfisskipulagi.
„Ég hef mest verið að vinna í Civil 3D við að setja upp teikningar
og aðstoða við hönnun á flugbrautum, landlíkönum og veglínum.“
„Það er kannski ekki eitthvað eitt verkefni sem að stendur
upp úr, allt hefur þetta verið mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Það sem hefur
hins vegar staðið upp úr er starfsandinn hérna og það hversu vel er tekið á
móti nýjum starfsmönnum.“
Eiríkur Ingi Jónsson meistaranemi í raforkuverkfræði var starfsmaður á Starfsstöðvasviði á Egilsstöðum en í lok sumars flutti hann yfir í rafbúnaðarhóp á Orku- og iðnaðarsviði með aðsetur á Akureyri. Eiríkur Ingi sinnti ýmsum tilfallandi verkefnum í sumar.
„Flest verkefnin sem ég vann í sumar sneru að álags- og
ljósbogagreiningu á ýmsum kerfum, svo sem dreifistöðvum á Akureyri og
Lögbergslínu, þar sem ég teiknaði upp kerfin í forriti sem heitir Paladin
DesignBase og framkvæmdi greiningar í sama forriti.“
Það verkefni sem stóð upp úr að hans mati var vatnamælingar
í kringum Egilsstaði þar sem hann aðstoðaði við uppsetningu á mælitækjum og
fékk í leiðinni að njóta veðurblíðunnar fyrir austan í sumar.
Magdalena Guðrún Bryndísardóttir, B.Sc. í umhverfis- og byggingarverkfræði, aðstoðaði við
burðarvirkjahönnun í margvíslegum verkefnum í burðarvirkjahópi á Byggingasviði. Fyrri hluta sumars aðstoðaði hún við hönnun á
íþróttahúsi og sundlaug fyrir Stapaskóla í Njarðvík og seinni hluta sumars aðstoðaði
hún við hönnun á Katrínartúni sem er tíu hæða skrifstofubygging við Höfðatorg.
„Ég vann mikið í Revit í sumar og lærði mjög vel á það
forrit.“
Silja Björk Axelsdóttir, B.Sc. í hátækniverkfræði, aðstoðaði við gerð stjórnkerfa
fyrir hitaveitur á Orku- og iðnaðarsviði. Hennar helsta verkefni í sumar var að taka þátt í að
endurnýja stjórnkerfi Hitaveitu Stykkishólms.
„Hlutverk mitt í verkefninu var að hanna skjámynd fyrir
kerfið ásamt því að fá að taka þátt í forritun stýrivélarinnar. Það sem stóð
upp úr var að fá að fara á mismunandi verkstaði og taka þátt í prófunum á
merkjum skjámynda og stýrivéla.“
„Verkefnin sem ég
vann við í sumar voru bæði fjölbreytt og skemmtileg.“