27/01/2020

Stefnt að útboði Vesturlandsvegar í sumar

Stefnt að útboði Vesturlandsvegar í sumar
Breikkun Vesturlandsvegar

Stefnt að útboði Vesturlandsvegar í sumar. Síðustu mánuði hefur Verkís unnið að forhönnun breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes og þegar henni lýkur tekur við verkhönnun. Lagt er upp með að bjóða verkið út í sumar, eða um leið og hönnunarvinna, samningur við landeigendur, umhverfismat og framkvæmdaleyfi er í höfn.

Fjallað var um verkefnið í Morgunblaðinu sl. laugardag. Þar var haft eftir Önnu Elínu Jóhannsdóttur, verkfræðingi á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar, að í hönnunarferlinu hafi komið í ljós að hagkvæmara sé á jarðtæknilega erfiðum svæðum að aðskilja þversnið vegarins í stað þess að breikka hann.

Í forhönnunarferlinu lét Vegagerðin skoða fleiri valkosti en að breikka veginn, þ.e. þversnið vegarins voru endurskoðuð frá því sem lýst er í deiliskipulagi. Helstu ástæður endurskoðunar þversniða séu sigvandamál sem geti skaðað núverandi
hringveg með tilheyrandi óhagræði
á framkvæmdartíma sem og auknum kostnaði.

Jafnframt er haft eftir Önnu Elínu í frétt Morgunblaðsins að fyrirséð sé að jarðvegssnið verði mikið og umfang ferginga í verkinu því töluvert. Þetta valdi því að ekki sé hægt að breikka núverandi hringveg án þess að valda skemmdum á löngum köflum á veginum sem fyrir er.

Áhrifum á núverandi hringveg verði haldið í lágmarki með því að leggja nýjan veg hæfilega langt frá núverandi vegi til að hann verði ekki fyrir skemmdum vegna sigs. Umferð á verktíma verði núverandi hringveg sem gefur möguleikann á að spara uppbyggingu hluta hliðarvega þar sem ekki er þörf á að nýta hliðarvegi sem hjáleiðir á verktíma.

Aðrir kostir við að akrein verði aðskilin frá núverandi hringvegi eru helst þeir sem ekki þarf að færa lagnir, strengi og dreifistöðvar í og við núverandi Esjuveg, minna raks verður fyrir bæina Ljárdal og Sjávarhóla, einfaldara verður síðan að klára fullan 2+2 veg og mun meira hagræði verður fyrir verktaka. Mikill samfélagslegur kostnaður sparast þar sem kostnaður Veitna lækkar mikið.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur og auka umferðaröryggi vegfaranda. Á stærstum hluta verður veginum breytt í 2+1 veg. Jafnframt verða gerð þrjú hringtorg, vegtengingum fækkað og lagðir hringvegir.

Um er að ræða breikkun Hringvegar (1) á um níu kílómetra kafla, þrjú hringtorg á Hringveginum, um tólf kílómetra af hliðarvegum (bæði nýir og uppfærðir núverandi vegir), fimm undirgöng (þrjú stálgöng og tvö steypt), tvö mannvirki yfir á (annars vegar lenging og hins vegar breikkun) og um 3,4 km af hjóla- og göngustígum.

Lengi hefur verið kallað eftir breikkun Vesturlandsvegar enda hafa þarna orðið mörg alvarleg slys. Íbúar á Kjalarnesi og sveitarstjórnafólk á Vesturlandi hafa margoft ályktað um nauðsyn tvöföldunar vegarins.

Ljósmyndir/Verkís. Frá vettvangsferð í haust. 

Frétt mbl.is: Verkís hannar breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes
Verkefni: Breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes

Stefnt að útboði Vesturlandsvegar í sumar
Breikkun Vesturlandsvegar