Stefnir kom á óvart með farflugi í febrúar
Stefnir kom á óvart með farflugi í febrúar. Grágæsargassinn Stefnir fékk nóg af íslenska vetrinum í febrúar og fór úr landi. Hann lagði þó ekki leið sína á sólarströnd eins og Íslendingar gera gjarnan um þetta leyti árs, Stefnir lagði í áhættusamt ferðalag til Skotlands.
Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, hefur fylgst með ferðum Stefnis frá því að hann var merktur með GPS/GSM-sendi á Þingvöllum sumarið 2019. Hann er duglegur að segja fréttir af fuglunum sem hann fylgist með en einnig var fjallað um óvænt ferðalag Stefnis í Morgunblaðinu í febrúar.
Fjölskyldufaðir á Þingvöllum
Þegar Stefnir var merktur var hann fjölskyldufaðir og að minnsta kosti þriggja til fjögurra ára gamall. Veturinn eftir kom Stefnir á óvart því hann dvaldi í Landeyjum um haustið þar sem einna mest er skotið af gæsum á landinu. Hann varði vetrinum síðan í Þykkvabæ og Landeyjum.
Um vorið sneri Stefnir aftur til Þingvalla án konu sinnar. Taldi Arnór mögulegt að kona hans og ungar hafi verið skotin en Stefnir lifað af. Þetta sumar virtist Stefnir ekki eiga hreiður og var einn á ferð þegar til hans sást. Hann tók sig upp í júlí og flaug vestur í mynni Hvammsfjarðar þar sem hann felldi fjaðrir. Þar eru þekktar fellistöðvar grágæsa.
Hver er nýja kerla Stefnis?
Veturinn 2020/2021 dvaldi Stefnir aftur í Þykkvabæ og Landeyjum og lifði af veiðitímann. Arnór sá hann aftur á Þingvöllum í fyrrasumar og var Stefnir þá með kerlingu en enga unga og virtust þau ekki hafa hreiður um vorið. Kerlan var merkt með stálmerki en þegar Stefnir var merktur var gæs, sem þá var talin kerla hans, með slíkt merki. Annað hvort fann stefnir sína gömlu eða tók saman við aðra merkta gæs.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má hjá Stefni ásamt kerlu sinni í Öxará á Þingvöllum sumarið 2021.
Lagði í áhættusamt ferðalag
Í haust hélt Stefnir fyrri háttum og fór á þekktar gæsiveiðilendur í Landeyjum og á Skeiðum. Það leit út fyrir að hann ætlaði að dvelja í Þykkvabæ og Landeyjum í vetur, þar til hann skellti sér til Skotlands. Ferðalag hans þangað hefur verið áhættusamt því væntanlega eru gæsir ekki í sínu besta formi hvað varðar nægan forða til fararinnar á þessum tíma. Stefnir unir sér vel í Caithness (ísl. Katanesi) og segir Arnór að fastlega megi búast við honum aftur til Íslands í vor og að hann fari heim að Þingvöllum.
Í fyrra kom vorboði þjóðarinnar, heiðlóan, til landsins 28. mars. Þegar líður á apríl fara fleiri farfuglar að skila sér til landsins, meðal annars merktar grágæsir og helsingjar. Við bíðum eflaust flest spennt eftir þeim, vorinu og sumrinu.
Sendirinn sem Stefnir er með er styrktur af Landsneti.
Hér er hægt að fylgjast með ferðalögum gæsa sem hafa verið merktar af Verkís.