10/07/2024

Starfsfólk Verkís fær fullan stuðning í fæðingarorlofi

Starfsfólk Verkís
Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri og Elín Greta Stefánsdóttir, mannauðsstjóri hjá Verkís
Hjá Verkís er lögð sérstök áhersla á að skapa fjölskylduvænan vinnustað, m.a. með því að bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma og fjarvinnu. Með það að markmiði að gera enn betur hefur Verkís ákveðið að tryggja fastráðnu starfsfólki sínu full laun í fæðingarorlofi í allt að sjö og hálfan mánuð. Þetta þýðir að Verkís mun greiða að fullu mismuninn á launum og þeim mánaðarlegu greiðslum sem starfsmaður hlýtur frá Fæðingarorlofssjóði. Að auki mun starfsfólk ávinna sér rétt til greiddra orlofsdaga á meðan það er í fæðingarorlofi.
 
„Með því að tryggja starfsfólki full laun í fæðingarorlofi erum við að skapa enn betra umhverfi fyrir fjölskyldufólk og stuðla þannig að bættum fjárhag fjölskyldna á þessu mikilvæga tímabili. Það skiptir einnig miklu máli að starfsfólk vinni sér inn rétt til greiddra orlofsdaga í fæðingarorlofi svo það hafi tækifæri til að taka sér sumarfrí með fjölskyldunni en missi ekki orlofsrétt sinn í fæðingarorlofi eins og verið hefur“ segir Egill.
 
Elín Greta bætir síðan við: „Það er einnig mikilvægt jafnréttismál að styðja með þessum hætti við starfsfólk í fæðingarorlofi og vonandi verður þetta hvatning fyrir öll kyn að nýta sér rétt sinn til að taka  fæðingarorlof og njóta þessa yndislega fyrsta tímabils í lífi barnanna. Á síðasta ári stigum við það skref að veita öllu starfsfólki okkar fullan orlofsrétt í 30 daga, óháð starfsaldri, til að styðja enn betur við markmið okkar um að starfsfólk hafi möguleika á góðu jafnvægi milli einkalífs og vinnu og að við séum fjölskylduvænn vinnustaður“.
 
Verkís hlaut á dögunum viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2024 en könnunin er stærsta vinnumarkaðsrannsókn á Íslandi. Í könnuninni er spurt um viðhorf starfsfólks til ólíkra þátta starfsumhverfisins eins og t.d. stjórnunar, starfsanda, jafnréttis og starfsánægju. Í könnuninni kom fram að um 99% starfsfólks Verkís er ánægt með þann sveigjanleika sem það hefur í starfi og tæp 97% er ánægt með stefnu og áherslur Verkís í jafnréttismálum.
 
„Við trúum að þessar breytingar geri Verkís að enn eftirsóknarverðari vinnustað og auðveldi okkur að laða að og halda í hæft og gott starfsfólk“ segir Egill að lokum.
 
Verkfræðistofan Verkís er framsækið ráðgjafarfyrirtæki sem býður fyrsta flokks þjónustu á nær öllum sviðum verkfræðiráðgjafar og skyldum greinum. Verkís státar sig af fjölbreyttum hópi starfsfólks sem telur rúmlega 380 manns sem starfa á 12 starfsstöðvum um land allt. Að auki á Verkís dótturfélög, m.a. í Noregi og á Grænlandi.
Starfsfólk Verkís
Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri og Elín Greta Stefánsdóttir, mannauðsstjóri hjá Verkís