05/10/2018

Stapaskóli

Stapaskóli
Stapaskóli

Stapaskóli, Verkís hefur frá því í sumar unnið að fullnaðarhönnun allra verkfræðiþátta á Stapaskóla, sem fyrirhugað er að byggja í Reykjanesbæ.

Stapaskóli er heildstæður skóli, leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, frístundaskóli og félagsmiðstöð. Fjöldi nemenda við fullsetinn skóla verður um 500 nemendur, þar sem hver árgangur telur um 50 nemendur. Gert er ráð fyrir um 60 starfsmönnum við skólann. Heildarstærð skólans er um 7.700 m² og stærð skólalóðar er um 33.300 m². Skólinn er á tveimur hæðum auk tæknikjallara og tæknirýmis sem telst til þriðju hæðar. Skólinn er byggður upp sem fjórar tveggja hæða kennslutvenndir auk stoðrýma, almennra svæða, matsalar, fjölnota salar og bókasafns. Gangar deila tvenndunum langsum eftir byggingunni og mynda með því „lífæð“ skólans. Til aðgreiningar hæða verða þær aðgreindar sem tæknikjallari, 1.hæð. 2.hæð og tæknirými á 3.hæð.

Verkefnið er BIM-verkefni þar sem markmiðin á hönnunarstigi eru skilgreind með skipulögðum hætti. Sem dæmi má nefna fara samræming allra faglíkana, sjónræn hönnunarrýni og markvissar árekstrargreiningar fram jafnt yfir allan hönnunartímann í BIM 360 Glue.

Heildarhönnun allra verkþátta miðar að því að verkefnið verði boðið út með hefðbundnum hætti seinnipart október nk. og að skólinn verði tekinn í notkun fyrir skólaárið 2020/2021. Verkefnið er unnið í samvinnu við Arkís arkitekta sem sjá um alla arkitektahönnun.

Að verkefninu stendur samheldinn hópur starfsfólks Verkís sem hefur einsett sér að ná markmiðum verkefnisins í gegnum markviss samskipti, samvinnu, samstöðu og gleði – það verður því gaman að fylgjast með þessari afurð verða að veruleika.

Stapaskóli
Stapaskóli