Samkeppni vegna farþegamiðstöðvar
Samkeppni vegna farþegamiðstöðvar. Faxaflóahafnir efndu til samstarfskeppni vegna hönnunar og byggingar fjölnota farþegamiðstöðvar á Skarfabakka í Sundahöfn í Reykjavík. Aðstöðunni er ætlað að þjóna öllum gerðum farþegaskipa, hvort heldur fyrir farþega sem hefja eða ljúka sinni ferð á Íslandi, sem og þeim sem eingöngu eru í dagsheimsókn.
Verkís sá um þarfagreiningu verkefnisins áður en farið var af stað með samkeppnina sem og ráðgjöf og verkefnisstjórn ásamt því að halda utan um samkeppnina í samvinnu við verkkaupa.
Aðstöðunni er ætlað að þjónusta og rúma tollaðstöðu fyrir þá farþega sem skipta frá siglingu yfir í flug til og frá Íslandi. Mikil aukning hefur orðið í fjölda þeirra ferðamanna sem þarf að þjónusta á síðustu árum og lítur út fyrir að það verði áfram. Því þurfti að skoða nýtt varanlegt aðstöðuhúsnæði sem leysir af hólmi tímabundna aðstöðu sem notuð hefur verið til tollunar farþegaskiptanna.
Dómnefndir mátu annars vegar heildarlausn, innra skipulag og kostnaðarmarkmið tillagna en hins vegar hæfni teyma til þess að taka þátt í samstarfi við Faxaflóahafnir um fullnaðarhönnun og byggingu mannvirkisins.
Sigurtillagan var tillaga teymis ÍAV, VSÓ og BROKKR STUDIO.
Frétt Faxaflóahafna: Vinningstillaga að nýrri fjölnota farþegamiðstöð á Skarfabakka