Ráðstefna í Þýskalandi um hreina orku
Ráðstefna í Þýskalandi um hreina orku. Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís og Þorleikur Jóhannesson, vélaverkfræðingur hjá Verkís, tóku þátt í ráðstefnunni Þýskaland og Ísland um hreina orku – Germany-Iceland Clean Energy Summit í gær. Ráðstefnan var haldin í húsnæði sendiráða Norðurlandanna í Berlín en auk sendiráðs Íslands stóðu Green by Iceland og energiewaehter fyrir ráðstefnunni.
Þorleikur átti sæti í pallborði um jarðhita og fjölnýtingu sem bar yfirskriftina Harnessing geothermal energy potential and it’s cascading uses. Hann ræddi m.a. um hitaveitu og mikilvægi þessa að nota tæknina til að nýta heita vatnið úr jörðinni til hins ítrasta.
Á ráðstefnunni var fjallað um nýlegar framfarir á sviði endurnýjanlegrar orku og tæknilegar lausnir sem flýta fyrir orkuskiptum. Þar komu saman fulltrúar ríkisstjórna, fyrirtækja og annnarra frá Íslandi og Þýskalandi til að ræða leiðir til að efla alþjóðlegt samstarf til að ná loftslagsmarkmiðum.
Meðal þátttakanda voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsmálaráðherra og Dr. Robert Habeck, efnahags- og loftslagsráðherra Þýskalands. Guðlaugur sagði m.a. í ræðu sinni að Íslendingar væru svo heppnir að vera ekki háðir rússneskri olíu eða gasi. Jarðvarmi sé innlend uppspretta sem færi okkur orkuöryggi, dragi úr þörfinni á því að flytja inn óendurnýjanlega orku og auki orkusjálfstæði.
Hér er hægt að nálgast upptöku frá ráðstefnunni.