Nýttu handskrifað minnisblað frá 1973
Nýttu handskrifað minnisblað frá 1973 við ráðgjöf vegna Syðstu Meradala. „Við Þorkell vorum sendir út í Eyjar til þess að athuga hvað væri hægt að gera til þess að bjarga byggðinni, eða minnka líkur á stórslysi með byggðina,“ segir Pálmi R. Ragnarsson, byggingarverkfræðingur, en hann er einn af þeim sem hafa komið að vinnu vegna varnargarða sem voru reistir í Syðstu Meradölum/Nafnlausadal.
Pálmi hefur víðtæka reynslu af gerð varnargarða og veitti meðal annars ráðgjöf vegna jarðelda í Kröflu og Vestmannaeyjum. Við vinnuna vegna viðbragðs við eldgosi á Reykjanesskaga rifjaði hann upp minnisblað og gögn sem urðu til þegar þeir Þorkell Erlingsson, einnig byggingarverkfræðingur hjá Verkís, fóru til Vestmannaeyja árið 1973 til ráðgjafar.
Pálmi segir aðdraganda ferðarinnar til Vestmannaeyja eftirminnilegan. Í marsbyrjun 1973 var hann í eftirlitsferð upp við Þórisvatn. Hringt var í Vatnsfell, spurt eftir honum og hann beðinn um að hafa samband við Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor við verkfræðideild HÍ og helsta hugmyndasmiðs vatnskælingar á hraunbrúninni. Nokkuð langt var fyrir Pálma að fara í síma og þar sem hann ætlaði til Reykjavíkur um kvöldið ákvað hann að bíða með að hringja í prófessorinn þar til næsta morgun.
„Það var mikill misskilningur hjá mér. Þegar ég kom að Ísakoti við ofanvert Bjarnarlón var setið fyrir mér og ég beðinn að hringja í Þorbjörn því mikið lægi við. Skemmst er frá því að segja að hann bað mig um að koma sem fyrst út í Eyjar,“ segir Pálmi. Átti hann að veita ráðgjöf um aðferðir til að minnka þann skaða sem hraunið líklega ylli. Á þessum tíma vann Pálmi hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen sem lagði til að Þorkell færi með honum. Seinna um daginn flugu þeir félagar til Eyja þar sem þeir dvöldu í nokkra daga við störf.
Anna Magnúsdóttir, bókasafnsfræðingur Verkís, var beðin um að leita að gögnum Pálma og Þorkels sem urðu til vegna vinnunnar í Vestmannaeyjum. Fann hún handskrifað minnisblað frá mars 1973 ásamt sniðum og teikningum frá þeim félögum.
„Við fórum þarna út, mældum þetta snið sem Anna fann, mældum þannig að ég fór út á hraunið með stöng og Keli var á tækjunum og las á. Þannig urðu þessi snið til sem um er að ræða. Við áætluðum vissa hluti sem mönnum leist nú ekki en við höfðum alltaf þá trú að garðar gerðu meira en vatnskæling,“ segir Pálmi og bætir við að það hafi ótvírætt verið raunin.