Nýtt varavatnsból við Árnarétt
Nýtt varavatnsból við Árnarétt. Í lok nóvember hófst borun fyrir köldu vatni í nýju varavatnsbóli fyrir Suðurnes við Árnarétt sem liggur í heiðinni milli Garðs og Sandgerðis í Suðurnesjabæ. Nú tæpum tveimur mánuðum seinna er varavatnsbólið komið upp fyrir um 25 þúsund íbúa Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Varavatnsbólið er stækkun á eldra vatnsbóli þar sem fyrir var ein borhola en nú hefur tveimur verið bætt við.
Verkís sá um hönnun pípulagna, raflagna, stjórnkerfis og borholuskúra ásamt því að afla neyðarleyfis hjá Orkustofnun fyrir nýtingu neysluvatns úr vatnsbólinu, en það var á sama tíma og neyðarstigi almannavarna var lýst yfir. Nýtingin var í samræmi við áætlun Verkís um hvað magn væri mögulegt nýta á þessu svæði. Í gildandi aðalskipulagi, sem Verkís vann, var gert ráð fyrir að hægt væri að nýta þetta vatnsból í neyð.
Auk þess hefur Verkís séð um samskipti við verktaka og umsjón og eftirlit með framkvæmdum.
Vatnsbólið getur annað íbúum og fyrirtækjum á svæðinu, öðrum en stórnotendum, en gert er ráð fyrir að vatnsbólið geti skilað allt að 100 lítrum á sekúndu. Gripið var til þessara ráðstafana vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og mögulegra áhrifa þeirra á vatnsbólið að Lágum við Svartsengi en það sér íbúunum fyrir neysluvatni.
Í tilkynningu frá HS Veitum segir að ef það yrði neysluvatnslaust vegna náttúruhamfara yrðu afleiðingarnar „neyðarástand þar sem neysluvatn er grunnforsenda þess að hægt sé að halda uppi búsetu og atvinnustarfsemi á svæðinu. Því er mikilvægt að tryggja svæðinu öruggt aðgengi að neysluvatni,“
Árnaréttur hentar vel því að þar er gott aðgengi inn á neysluvatnsdreifikerfi HS Veitna í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og þar er auk þess skilgreint vatnsverndarsvæði.