27/03/2018

Nýr leikskóli í Bláskógabyggð

Nýr leikskóli í Bláskógabyggð
Bláskógarbyggð undirritun

Nýr leikskóli í Bláskógabyggð. Verkís vinnur að hönnun nýs leikskóla fyrir Bláskógabyggð í samstarfi við VA Arkitekta. Um er að ræða um það bil 530 m² leikskóla með þremur deildum og sér Verkís um hönnun og ráðgjöf vegna allra verkfræðiþátta.

Leikskólinn er staðsettur í Reykholti í Biskupstungum við hlið íþróttamiðstöðvar, sundlaugar og grunnskólans á svæðinu.

Leikskólinn er grundaður á fyllingu og samanstendur burðarvirki byggingarinnar af steyptum sökklum og steyptum út- og innveggjum, en þakvirkið er gert úr stálbitum og léttu timburvirki. Byggingin er upphituð með gólfgeisla og eru öll rými loftræst með vélrænni loftræsingu.

Sérstakt tillit er tekið til hljóðvistar og er sérvalin innanhúsklæðning á veggjum og hljóðdúkur í lofti sem tryggir bæði góða hljóðvist og uppfyllir skilyrði brunahönnunar. Byggingin er klædd að utan með bárujárni á bæði veggjum og þaki, en innskot eru klædd með timbri.

Við hönnun á byggingunni hefur bæði verkkaupa og meðhönnuðum gefist kostur á því að kynna sér mannvirkið í sýndarveruleika (VR) í höfuðstöðvum Verkís í Ofanleiti í Reykjavík. Hefur það gefið góða raun og nýst vel við að yfirfara útlit og hönnun.

Byggingin skiptist í þrjár deildir, 1-2 ára deild, 2-3 ára deild og 4-5 ára deild. Á milli deilda eru tvö hóprými og hvíldarherbergi. Þá er stórt fatahengi í anddyri og matsalur fyrir starfsfólk og nemendur.

Í byggingunni eru einnig kaffistofa og vinnuherbergi kennara, sérkennslurými, listasmiðja, myrkvaherbergi, aðstaða leikskólastjóra ásamt ýmsum tæknirýmum. Lóð leikskólans er um 1500 m² að stærð og verður henni skipt upp í leiksvæði fyrir yngri deildir og leiksvæði fyrir eldri deildir. Á lóð verður einnig leiktækjageymsla og geymsla fyrir barnavagna.

Ráðgert er að skila útboðsgögnum á næstunni og eru áætlaðar verkframkvæmdir í sumarbyrjun 2018.

Nýr leikskóli í Bláskógabyggð
Bláskógarbyggð undirritun