01/10/2024

Nýnemar í rafmagns- og tölvuverkfræði heimsækja Verkís

Þriðjudaginn 24. september komu um 40 nemendur á fyrsta ári í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands í heimsókn til Verkís. Heimsóknin er árlegur viðburður og hluti af námskeiðinu Nám og störf í rafmagns- og tölvuverkfræði, þar sem markmiðið er að kynna nýnemum fyrir möguleikum framtíðarstarfa í faginu og þeim tækifærum sem íslensk fyrirtæki bjóða upp á.

Nemendur fengu veitingar frá Lemon áður en haldið var í kynningar. Ásthildur Emma, sérfræðingur í mannauðsmálum hjá Verkís, kynnti fyrirtækið með áherslu á störf og verkefni rafmagns- og tölvuverkfræðinga. Þrír ungir rafmagnsverkfræðingar á Orku- og iðnaðarsviði deildu svo sinni reynslu af námi og starfi.

Fannar Pálsson sagði frá sinni þátttöku í tengivirkjaverkefnum Landsnets, kerfisgreiningum og kostnaðaráætlunum. Hafsteinn Einarsson fjallaði um einlínu- og kerfisteikningar, stjórn- og varnarbúnað og kerfisgreiningar. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir ræddi síðan um grunnhönnun vatnsveitukerfa, teikningar, PLC-forritun og prófanir.

Nemendurnir sýndu mikinn áhuga og spurðu fjölda spurninga um nám og störf rafmagnsverkfræðinga sem starfsfólk Verkís svaraði eftir bestu getu.

Við hlökkum til að taka á móti nýjum nemendum í rafmagns- og tölvuverkfræði aftur að ári.

Heimsmarkmið