Nýbygging við Sjúkrahúsið á Akureyri
Nýbygging við Sjúkrahúsið á Akureyri. Fyrir helgina kynnti Nýr Landspítali (NLSH) niðurstöðu hönnunarútboðs I2081 fyrir nýja aðstöðu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Verkís var þar í hópnum sem hlaut hæstu einkunnina af öllum og fékk 92,99 stig.
Haldið var forval í lok síðasta árs og komust fimm hönnunarteymi áfram. Valmódel lokaða útboðsins var tvískipt. Gæði tillögu gilti 60% og tilboðsverð hönnunarteymis 40% af heildareinkunn sbr. reglur útboðsins.
Eftir strangt samkeppnisferli varð Verkís fremst í flokki ásamt TBL Architects, JCA Ltd. og Brekke & Strand.
Hanna á nýbyggingu fyrir legudeildir í skurð- og lyflækningadeild og dag-, göngu- og legudeild fyrir geðdeild við núverandi húsnæði Sak. Hönnunarhópurinn er afar stoltur og fullur tilhlökkunar að leggja sitt af mörkum gagnvart uppbyggingu þessa samfélagslega mikilvæga verkefnis.
NLSH hefur kynnt bjóðendum niðurstöðuna og verkefnið verður nú unnið áfram í samræmi við lög nr. 120/2016 um opinber innkaup og lög nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda.