Ný dælustöð tekin í notkun á Selfossi
Ný dælustöð tekin í notkun á Selfossi. Ný dælustöð fyrir heitt vatn hefur tekið við af eldri dælustöð Selfossveitna á Selfossi. Nýja stöðin á að afkasta allt að 700 l/s en eldri stöðin afkastaði aðeins 250 l/s. Þörf var á auknum afköstum vegna mikillar fólksfjölgunar á Árborgarsvæðinu.
Verkís hannaði nýju dælustöðina sem og heitavatnsgeymi fyrir stöðina, ásamt því að forrita stjórnbúnað og gangsetja stöðina.
Verkís sá einnig um deiliskipulag vegna framkvæmdarinnar og hönnun lóðar Selfossveitna og áhaldahúss sveitarfélagsins Árborgar.
Þá sér Verkís einnig um skipulagningu á stofnæðum Selfossveitna að og frá dælustöðinni auk skipulagningu lagna og strengja annarra stofn- og dreifiveitna sem eiga lagnir um lóðina.
Vatnsforði geymanna allt að átta klukkustundir
Við hönnun á stöðinni var miðað við fjórar dælur en lagt upp með að ein dæla sé alltaf til vara. Lyftihæð er um 65-70 m. Samanlagður er vatnsforði nýja og gamla hitavatnsgeymisins allt að 8 klukkustundir miðað við núverandi notkun, en eldri geymirinn dugði einn um sig aðeins í 3-4 klukkustundir.
Til að byrja með verða aðeins þrjár dælur í stöðinni sem eiga að geta afkastað 500 l/s og nýi miðlunargeymirinn kemur síðar.
Í húsinu er einnig ný 1.500 kW vararafstöð sem getur fætt sjálfvirkt bæði dælustöðina og borholusvæði Selfossveitna í Þorleifskoti og Ósabotnum. Þar af leiðandi þarf ekki að stöðva dælingu hitaveitunnar, komi til rafmagnsleysis.
Verkkaupi gat „gengið“ um stöðina á hönnunarstigi
Með nýju stöðinni hefur orðið gríðarleg breyting á vinnuumhverfi frá því sem áður var. Byggt var nýtt hús yfir stöðina með öflugri loftræstingu og milligangur yfir í núverandi skrifstofuhúsnæði, þar sem eldri dælustöð var. Þar losnar rými fyrir skrifstofur sem mikil þörf er á.
Hér fyrir neðan má sjá ljósmynd sem var nýlega tekin inni í dælustöðinni og fyrir neðan hana teikningu sem gerð var af stöðinni í Revit áður en framkvæmdir hófust.
Öll dælustöðin var hönnuð í þrívídd. Á hönnunarstigi gafst verkkaupa kostur á að „ganga“ um stöðina með hjálp sýndarveruleika. Þannig var hægt að veita þeim sem koma til með að starfa við stöðina betri innsýn inn í hönnunina og þannig fá fram gagnlegar ábendingar. .
Verkefni: Dælustöð og geymir