21/12/2022

Pistill: Nokkur ráð

Pistill: Nokkur ráð
Það hefur verið kalt á landinu að undanförnu og verður áfram.

Nokkur ráð til þeirra sem vilja fara vel með heita vatnið og hús í frostinu.

Mikið álag hefur verið á hitaveitukerfi landsins síðustu daga vegna kuldatíðar og sér ekki fyrir endann á því. Það er því sérstaklega mikilvægt að huga vel að því hvernig við nýtum heita vatnið sem best. Í þessum pistli gefa sérfræðingar Verkís okkur nokkur góð ráð, bæði um heita vatnið og loftun á húsnæði í miklu frosti.

Er ofnlokinn virkur?
Það kannast eflaust mörg við það að reyna að hækka hitann í ofnunum á haustin án árangurs. Pinnar í ofnlokum/hitastillum ofnanna eiga það til að festast yfir sumarið þegar þeir eru minna notaðir og þegar pinninn er fastur nær ofninn ekki að hita rýmið líkt og óskað er eftir. Tiltölulega einfalt er að liðka pinnann en einnig hægt að hafa samband við pípara.

Er eitthvað fyrir ofninum?
Mikilvægt er að byrgja ekki ofna, til dæmis með því að setja handklæði ofan á þá, hafa gólfsíðar gardínur eða koma fyrir húsgögnum líkt og rúmum eða sófum fyrir alveg upp við þá. Ef það er gert er takmarkað gagn af ofninum og þannig nýtist heita vatnið sem streymir í gegnum ofninn ekki nógu vel. Gott er að miða við að hafa húsgögn 20-50 sentímetrum frá ofni.

Af hverju er sérstaklega mikilvægt að lofta út í frosti?
Það er ósköp eðlilegt að það sé raki innandyra, raki er einfaldlega uppgufað vatn og er alltaf í loftinu. Raki í innilofti eykst meðal annars þegar við eldum, þurrkum þvott og förum í sturtu eða bað og meira að segja þegar við öndum. Það er aftur á móti mjög mikilvægt að rakastig sé hæfilegt, hvorki of hátt né of lágt.

Á Íslandi er algengast að hús séu hituð upp með hitaveituvatni annað hvort með hita í gólfum og/eða með ofnum sem jafnan eru staðsettir undir gluggum. Ofnar undir gluggum skapa hringrás lofts um herbergi sem byggir á því að kalt loft leitar niður og heitt loft upp. Það er mikilvægt að ofnar séu í lagi því þá eru minni líkur á því að það myndist kuldapollar. Heitt loft getur innihaldið meiri raka en kalt loft, svo ef heitt loft kólnar getur orðið rakaþétting og það skýrir að vatnsdropar eða móða verður sýnileg á yfirborði kaldra flata, oft við rúður.

Þegar það er mikið frost úti er skiljanlegt að fólk vilji síður hafa glugga opna svo ekki verði kalt í húsum. Það er aftur á móti alltaf mikilvægt að lofta vel út, við það lækkar hlutfallsraki inniloftsins minni hætta verður á að uppgufað vatn setjist á fleti innanhúss sem eykur líkur á að mygla myndist.

Umhverfisstofnun mælir með því að leyfa gegnumtrekk tvisvar á dag í tíu mínútur í senn,  sem einnig mætti kalla snöggloftun. Sé ekki möguleiki að ná fram gegnumtrekk mæla sérfræðingar Verkís með því að hafa glugga eða hurð vel opna í staðinn. Betra er að framkvæma snöggloftun 2-4 yfir daginn en að hafa rifu á glugganum allan daginn. Oft er ofnlokinn efst á ofninum og þess vegna næst opnum glugga og skynjar hann því að það sé kaldara í rýminu en í raun er, hitar meira en þarf og sóar heitu vatni.

Gluggar sem gráta og húsgögn þétt við útveggi
Ef stór húsgögn eru við útvegg ætti alltaf að vera 10-20 sentímetra bil frá útvegg að húsgagni, eða svokallað loftbil. Sé húsgagnið alveg við vegginn geta skapast aðstæður þar sem yfirborð byggingarhluta verða svo kaldir að raki þéttist og skapar kjörastæður fyrir myglu. Gott er að draga húsgögnin frá veggjunum, athuga hvort þar hafi safnast raki og þurrka hann ef við á. Þá er æskilegt að láta húsgögnin standa frá veggjunum þangað til kuldakastið er liðið hjá.

Gjarnan myndast móða á rúðum/gluggum vegna raka úr innilofti þegar kalt er úti og þar sem raki safnast saman geta skapast kjöraðstæður fyrir mygluvöxt. Mikilvægt er að þurrka móðu af gluggum og öðrum flötum jafnóðum og draga gardínur frá á daginn til að tryggja uppgufun rakans.

Stefán Hjalti Helgason
Stefán Hjalti Helgason er byggingartæknifræðingur á Byggingasviði Verkís.

Kristján Guðlaugsson
Kristján Guðlaugsson er byggingarverkfræðingur á Byggingasviði Verkís.

Heimsmarkmið

Pistill: Nokkur ráð
Það hefur verið kalt á landinu að undanförnu og verður áfram.