Lofthreinsistöð á Hellisheiði
Lofthreinsistöð á Hellisheiði. Í síðustu viku hófst starfsemi lofthreinistöðvarinnar Orca í jarðhitagarði Hellisheiðarvirkjunar. Verkís sá um alla verkfræðilegahönnun og eftirlit á veitukerfum sem tengja stöðina við kerfi og innviði Hellisheiðarvirkjunar, þar á meðal skiljuvatn, kalt vatn, rafmagn og ljósleiðara.
Verkís sá einnig um hönnun og eftirlit á háþrýstri gaslögn sem flytur koltvísýring frá lofthreinsistöðinni og að niðurrennslisholu, um 3,5 km leið.
Verkefnið er unnið í samvinnu við Climeworks og ON.
Lofthreinistöðin fangar koltvísýring úr andrúmsloftinu og fargar honum í samstarfi við íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbfix sem er dótturfyrirtæki OR. Stöðin er gríðarstór áfangi í beinni loftföngun CO2, en stöðin getur fangað 4.000 tonn af CO2 á ári. Koltvísýringur er fjarlægður beint úr andrúmsloftinu á öruggan hátt og fargað varanlega með því að breyta honum með náttúrulegri aðferð í stein. Koltvísýringnum er dælt upp blönduðum í vatn, djúpt í jörðu, í borholu á virkjunarsvæðinu.
Stöðin er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og setur fordæmi á markaði sem þessum.
Verkís er stolt að hafa fengið að taka þátt í slíku verkefni og óskum við OR, Orku náttúrunnar, Carbfix og Climeworks sem er eigandi lofthreinsistöðvarinnar til hamingju með þennan stóra áfanga og þessa glæsilegu stöð.
Frétt á visir.is: Byltingarkennd lofthreinsistöð á Hellisheiði