Kenna námskeið um skipulagsmál
Kenna námskeið um skipulagsmál. Erla Bryndís Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og Gunnar Páll Eydal, umhverfis- og auðlindafræðingur, voru að ljúka við kennslu á námskeiði um skipulagsmál hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Þetta er annað árið sem þau Erla og Gunnar kenna þetta námskeið sem er ætlað fyrir sveitarstjórnarfólk og aðra kjörna fulltrúa í nefndum sveitarfélaga. Einnig er það hugsað fyrir starfsfólk sveitarfélaga og aðra opinbera starfsmenn sem tengjast skipulagsmálum ásamt því að það gæti verið gagnlegt fyrir íbúa sem láta sig skipulagsmál varða.
Á námskeiðinu var m.a. farið yfir tilgang og markmið skipulagsgerðar, helstu hugtök í skipulagi, mismunandi gerðir skipulags og skipulagsferlið. Fjallað var um áhrif skipulags á umhverfi og samfélag og aðkomu íbúa og annarra aðila að skipulagsgerðinni.
Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu þátttakenda á skipulagsmálum. Námskeiðinu er ætlað að veita ákveðna yfirsýn um skipulagsmál, auka skipulagslæsi og færni til þátttöku í skipulagsgerð.
Nemendur sem sóttu námskeiðið höfðu m.a. þetta um það að segja:
„Mjög góð og skýr framsetning, hnitmiðað og upplýsandi.”
„Flott yfirferð á námsefninu, kennarar héldu góðum dampi.”
Hægt er að kynna sér námskeiðið betur hér.
Starfsfólk Verkís hefur í fjölmörg ár kennt hin ýmsu fög í háskólum landsins. Verkís áttar sig á mikilvægi þess að halda sterkri tengingu við háskólasamfélagið ásamt því að þekkingarflæðið sem rennur þar á milli og gott samstarf styrkir báða aðila til framtíðar.