Hús íslenskunnar – Framkvæmdir ganga vel
Hús íslenskunnar. Þrátt fyrir afleitt vetrarveður og heimsfaraldur hafa framkvæmdir við Hús íslenskunnar gengið vel það sem af er ári. Nú er svo komið að fyrsta hæðin er svo til fullsteypt og unnið er að því að járnabinda gólfplötu annarrar hæðar.
Verkís sér um aðstoð á framkvæmdatíma og hafði umsjón með allri verkfræðihönnun og sá um burðarþolshönnun og loftræsi- og lagnahönnun, sjá nánar hér.
Í frétt á vef Framkvæmdasýslu ríkisins sem birt var á þriðjudag segir að framkvæmdirnar séu á áætlun en illviðri hafi dregið heldur úr framkvæmdahraða á tímabilinu desember til mars. Undanfarnar vikur hefur fyrsta hæðin litið dagsins ljós og sporöskjulaga form byggingarinnar farið að sýna sig.
Framkvæmdir hófust síðastliðið haust þegar hafist var handa við að steypa kjallara, bílakjallara og undirstöður undir tjörn sem mun umlykja húsið. Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá stöðu framkvæmda síðdegis þriðjudaginn 5. maí.
Húsi íslenskunnar er ætlað að vera fullbyggt haustið 2023 en þá flytja starfsemi Árnastofnunar og íslenskudeildar Háskóla Íslands í bygginguna. Í húsinu verða helstu dýrgripir íslenskrar menningar varðveittir til framtíðar. Húsið verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta hússins og þá verður einnig opinn bílakjallari við húsið.
Á myndbandinu hér fyrir neðan má sjá þróun byggingarinnar frá áramótum til loka apríl. Myndbandið var unnið af Framkvæmdasýslu ríkisins.