Hólasandslína 3 formlega tekin í rekstur
Hólasandslína 3 formlega tekin í rekstur við hátíðlega athöfn á Akureyri föstudaginn 30. september sl., ásamt tveimur nýjum 220 kV tengivirkjum á endapunktum línunnar. Markmið framkvæmdarinnar er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Verkís sinnti m.a. verkeftirliti með lagningu jarðstrengshluta línunnar og byggingu tengivirkjanna, ásamt hönnun á rafbúnaði þeirra.
Hólasandslína liggur innan fjögurra sveitarfélaga; Akureyrarkaupstaðar, Eyjafjarðarsveitar, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Hún skiptist í 62 km loftlínuhluta og 10 km jarðstrengshluta. Auk línunnar eru byggð ný 220 kV tengivirki á Hólasandi og á Rangárvöllum við Akureyri en þau eru bæði hluti af nýrri kynslóð stafrænna tengivirkja. Þau eru yfirbyggð með gaseinangruðum (GIS) rafbúnaði.
Línuleiðin fylgir línuleið núverandi Byggðalínu að mestu, en frá Laxárdalsheiði að Hólasandi er línuleiðin ný. Línan var strengd yfir Laxárdal í um 1 km löngu hafi til þess að lágmarka umhverfisáhrif og er það eitt lengsta línuhaf á landinu. Fyrstu 10 km Hólasandslínu 3 frá Rangárvöllum á Akureyri voru lagðir með jarðstreng, en hann endar í landi Kaupangs í Eyjafjarðarsveit þar sem loftlínan tekur við. Lögð eru tvö sett af 1.600 mm2 strengjum. Ný strengjabrú yfir Glerá var reist vegna strengjanna og nýtist hún einnig sem reiðbrú.
Verkís vann verkhönnun tengivirkjanna á Hólasandi og Rangárvöllum og útboðshönnun fyrir allan rafbúnað þeirra. Verkís annaðist einnig eftirlit með hönnun rafbúnaðarverktaka og veitti aðstöð á útboðs- og framkvæmdatíma tengivirkjanna. Verkíst annaðist verkeftirlit með byggingu tengivirkjanna ásamt uppsetningu rafbúnaðar og prófunum. Þá sinnti Verkís verkeftirliti með umfangsmiklu og flóknu verki við jarðvinnu og lagningu tveggja setta af jarðstrengjum í Hólasandslínu 3 og með byggingu streng- og útivistarbrúar yfir Glerá.
Með tilkomu Hólasandslínu 3 og tengivirkjanna á Hólasandi og Rangárvöllum er komin tenging á 220 kV spennu á milli Fljótsdals og Akureyrar og þar með umtalsvert aukin flutningsgeta á svæðinu en þrjár virkjanir tengjast kerfinu beint og óbeint.
Verkís óskar Landsneti og landsmönnum öllum til hamingju með þetta mikilvæga skref í uppbyggingu nýrrar kynslóðar byggðalínu og tilheyrandi tengivirkja.