31/05/2023

Hélt erindi um sílamáfa 

Hélt erindi um sílamáfa
Sílamáfur liggur á eggjum undir viðarhríslu á þaki í Reykjavík.

Hélt erindi um sílamáfa. Arnór Þ. Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, hélt nýlega fræðsluerindi fyrir íbúa Garðabæjar á fræðslu- og upplýsingafundi um máfa.

Arnór sagði frá sílamáfum sem koma hingað til lands í mars/apríl, helgar sér óðal í apríl og verpa í móum, söndum, melum eða hraunum. Varpið hefst í maí og liggur mávurinn á í tæpan mánuð. Ungar eru síðan á óðali í 30 – 40 daga og síðan eru máfarnir að mestu farnir í lok september.

Sílamáfar eru alætur og nærast bæði á náttúrulegri fæðu líkt og smáum fisku, fjörulífverum, músum og rottum og hræjum en einnig á molum frá mönnum, m.a. brauðgjöfum, mat í frárennsli og ruslahaugum. Máfarnir eiga líka til að sækja í fisk við löndun og kjöt þar sem verið er að grilla.

Nábýli við sílamáfinn hefur aukist og er það sumum til ama. Máfar eru strandfuglar og með því að byggð færist að hefðbundnum varplöndum verða árekstra milli manna og máfa í nábýlinu. Ýmislegt er til ráða, loka fæðuuppsprettum af mannavöldum, þ.e. koma í veg fyrir að mávar komist í rusl og brauðgjafir. Koma í veg fyrir að varp á þökum líkt og hefur borið á í Sjálandshverfinu. Einnig má reyna að trufla varp máfanna m.a. með því að tína eða eyðileggja egg með ástungum eða kæfa með parafinolíu.

Í næsta nágrenni við Sjálandhverfið eru máfavarp í friðlandi í Gálgahrauni. Friðlýsing setur nokkrar skorður við því sem hægt er að gera í varpinu.  Einnig eru sílamáfsvörp í Bessastaðanesi og í Garðaholti sem er skammt undan og máfar þaðan einnig að sækja inn í hverfið.  Til að truflun eða fæling beri árangur þá þurfa máfarnir að fá að vera í friði annarsstaðar svo þeir hrekist ekki fram og aftur.

Hélt erindi um sílamáfa
Sílamáfur liggur á eggjum undir viðarhríslu á þaki í Reykjavík.