24/03/2021

Heildarendurskoðun aðalskipulags Bolungarvíkur

Heildarendurskoðun aðalskipulags Bolungarvíkur
Bolungarvík

Heildarendurskoðun aðalskipulags Bolungarvíkur. Þessa dagana stendur yfir kynning á drögum að aðalskipulagi Bolungarvíkur fyrir árin 2020 – 2032. Verkís hefur komið að ráðgjöf við endurskoðun á skipulaginu frá árinu 2018. Aðalskipulag felur í sér langtímastefnumörkun sveitarfélagsins um fyrirkomulag byggðar.

Aðalskipulag Bolungarvíkur er unnið og kynnt í vefsjá þar sem þægilegt er að fylgjast með framvindu skipulagsins og skoða afurðir verkefnisins. Þetta er í fyrsta skipti sem Verkís kynnir aðalskipulag með þessum hætti og hefur það reynst vel. Aðkoma almennings og hagsmunaaðila er mikilvæg við skipulagsgerð en það getur verið áskorun að ná til fólks.

Vefsjánni er ætlað að bæta aðgengi almennings að skipulagsgerðinni. Í Bolungarvík var einnig settur á fót skipulagshópur sem samanstendur af fulltrúum íbúa, félagasamtaka og atvinnugeira. Með þátttöku þeirra var reynt að fá fram fjölbreytt sjónarmið og upplýsingar og gera skipulagið þannig betra.

Skipulagið er unnið í landupplýsingakerfi (GIS) en það býður upp á tengingu á milli korta og texta og er stór kostur við þessa framsetningu. Í vefsjánni er hægt að smella á uppdrátt og sjá stefnu og ákvæði sem eiga við um svæðið. Það er mikil breyting frá því sem tíðkast hefur, þ.e. aðskilin skjöl á pdf-formi fyrir skipulagsgreinargerð og uppdrætti. Í vefsjánni er reynt að taka saman aðalatriðin á hnitmiðaðan hátt en reynslan sýni að fólk hefur almennt takmarkaðan áhuga á að blaða í þykkum greinargerðum um skipulagsmál, jafnvel þó að þær séu mikilvægar.

Nú er krafa um að aðalskipulagi skuli skilað á rafrænu formi og því sáu Verkís og Bolungarvíkurkaupstaður tækifæri til að útbúa vefsjá fyrir þetta verkefni. Þrívíddarframsetningin á skipulagsuppdrættinum kemur vel út og gerir skipulagið enn aðgengilegra. Á tímum farsóttar reyndist einnig gott að hafa vefsjána þar sem ekki var hægt að halda kynningarfundi eins og til stóð.

Leiðarljós aðalskipulagsins byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Lagt er upp með að í Bolungarvík verði heilbrigt, skemmtilegt og fjölskylduvænt samfélag með góðu aðgengi að heilnæmi og fallegu umhverfi. Boðið verður upp á einstaklingsmiðaða þjónustu í samfélagi sem hæfir öllum íbúum þess. Aðalskipulagið leggur grunn að fjölbreyttu, kröftugu og skapandi atvinnulífi sem byggir á öflugum innviðum og þeim grunni sem þegar er til staðar.

Heimsmarkmið

Heildarendurskoðun aðalskipulags Bolungarvíkur
Bolungarvík