Skemmtiferðaskip tengt við rafmagn í Reykjavík
Skemmtiferðaskip tengt við rafmagn í Reykjavík. Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til hafnar í Reykjavík í gær. Von er á um 270 skipum í sumar og á það að slá öll met í fjölda skipa og farþega. Í sumar verða skemmtiferðaskip af minni gerðinni landtengd með rafmagni í fyrsta skipti við gömlu höfnina í Reykjavík. Verkís gerði útboðsgögn og sá um eftirlit með hönnun og vinnu við rafdreifikerfið. Norska fyrirtækið PSW sá um hönnun, smíði og uppsetningu á landtengibúnaði.
Faxaflóahafnir hafa ákveðið að öll skip skuli vera landtengd, sé sá möguleiki fyrir hendi. Frá miðjum apríl verður hægt að landtengja skip með lágspennutengingu í Faxagarði í Gömlu höfninni í Reykjavík. Tengingin getur þjónað tveimur skipum á sama tíma. Markmið landtengingarinnar er að veita skipum áreiðanlegan og öruggan aflgjafa, sem stuðlar af skilvirkum og sjálfbærum rekstri.
Landtengingin er stöðluð landtenging samkvæmt alþjóðlegum staðli IEC PAS 80005-3 fyrir lágspennu landtengingu. Gert er ráð fyrir að skip geti tengst á allt að 1,5 MVA afli á lágspennu. Gert með 4 x 350 A stöðluðum tenglum og tengingum. Hægt er að velja um tíðni 50 eða 60 Hz og möguleiki á val á spennu 400, 440 eða 690 V. Sérhæfður búnaður þarf við tenginguna eins og tíðnibreytar til að breyta tíðni eftir ósk skipsins, spennubreytar sem breyta spennu en einangra skipið líka frá landi og strengrúllur sem sjá um að koma þungum strengjum milli skips og hafnar.
Aukinni umferð skipa fylgir enn meiri mengun. Skemmtiferðaskip eru olíuknúin og brenna skipagasolíu nema þegar þau eru landtengd með rafmagni. Mörg þeirra skemmtiferðaskipa sem koma hingað til lands eru með búnað til þess að landtengjast en aftur á móti eru hafnir landsins misvel í stakk búnar til að taka á móti þeim. Ljóst er að ríkur vilji er fyrir hendi til að koma þessum málum í betri farveg en því fylgja ýmsar áskoranir. Kjartan Jónsson, rafiðnfræðingur hjá Verkís, fjallaði um þessar áskoranir í tímaritinu Sjávarafli í nóvember á síðasta ári.