31/10/2019

Gufustöðin í Bjarnarflagi á fullum afköstum á ný

Gufustöðin í Bjarnarflagi
Bjarnarflag

Gufustöðin í Bjarnarflagi á fullum afköstum á ný. Á síðustu mánuðum hafa staðið yfir gagngerar endurbætur á Gufustöðinni í Bjarnarflagi. Stöðin er í eigu Landsvirkjunar og er elsta jarðgufuvirkjun landsins, upphaflega tekin í notkun árið 1969.

Endurbætur fólust í uppsetningu nýrrar og stærri vélasamstæðu, þ.e. nýs gufuhverfils, ásamt nýjum rafbúnaði, stjórn- og varnarbúnaði í upphaflega stöðvarhúsinu.

Við stöðvarhúsið kom einnig ný rakaskilja og settur var upp nýr vélarspennir á lóð Kísiliðjunnar skammt frá. Á sama tíma voru margvíslegar aðrar endurbætur framkvæmdar, svo sem á gufuveitu og lögnum í jörðu. Verkís var aðalráðgjafi við framkvæmdina og annaðist einnig eftirlit og aðstoð við prófanir og gangsetningu, en verkfræðistofan Mannvit kom einnig að endurbótum á gufuveitu.

Vélin var gangsett til bráðabirgða í lok maí sl. en þá var ekki unnt að keyra hana upp í full afköst. Hún var svo keyrð samfellt í allt sumar og gekk reksturinn vel. Í október var svo komið að því að keyra vélina upp í fullt afl, 5,0 MW, með tilheyrandi prófunum á keyrslu við ýmsar íturaðstæður. Eftir er að framkvæma nokkrar minni háttar lagfæringar með tilheyrandi prófunum og hefur því formleg gangsetning ekki farið fram, en virkjunin er þó keyrð á fullum afköstum.

Fyrri hverfill upphaflega notaður í sykurverksmiðju

Gufustöðin í Bjarnarflagi í Mývatnssveit er elsta gufuaflsstöð landsins og var fyrst gangsett árið 1969 til að bæta úr brýnum orkuskorti á Norð-austurlandi á þeim tíma. Afl stöðvarinnar var upphaflega 3 MW og nýtir hún gufu jarðhitasvæðisins við Námafjall. Fyrri gufuhverfill stöðvarinnar var smíðaður árið 1934 og fyrst notaður í sykurverksmiðju í Bretlandi.

Árið 2001 sá Verkís um endurnýjun alls rafbúnaðar og stjórn- og varnarbúnaðar, hönnun, deilihönnun, val á búnaði, aðstoð við innkaup, umsjón með uppsetningu, tengingum og prófunum og ásamt heimamönnum um gangsetningu á gufustöðinni.

Loks kom að því að skipta þurfti út gufuhverflinum og kom Verkís fyrst að því verki snemma árs 2015 með gerð hagkvæmnisathugunar og síðar verkhönnuðarskýrslu. Þegar í ljós kom að hagkvæmni verkefnisins var með ágætum, var hafist handa við hönnun og gerð útboðsgagna og síðar verksamninga vegna endurnýjunar bygginga, rafbúnaðar og vélasamstæðu jarðgufustöðvarinnar. Byggingarverk fólst í jarðvinnu, endurgerð stöðvarhúss og byggingu spennaþróar. Rafbúnaðarverk fólst í lagningu og tengingu aflstrengs, uppsetningu spennis og smíði, uppsetningu og tengingu nýs rafbúnaðar.

Nýju vélasamstæðunni fylgdi jafnframt stjórnbúnaður en Verkís annaðist hönnun nýs stjórnbúnaðar fyrir gufuveitur og hjálparkerfi. Ennfremur annaðist Verkís hönnunareftirlit og samræmingu á milli verktaka, verkeftirlit á framkvæmdatíma og kom að skipulagningu og samræmingu prófana og gangsetningu stöðvarinnar.

Aðstæður í Bjarnarflagi eru þannig að vegna hita í jörðu er ekki hægt að leggja lagnir neðanjarðar. Því voru strenglagnir hafðar ofanjarðar og var strengjum komið fyrir í rörum til að verjast ágangi sólar, nagdýra og mannfólks. Rörin eru fest við niðurgrafnar steyptar undirstöður til að halda þeim í réttri legu og sett á þau lítil göt til að tryggja lágmars loftflæði til kælingar.

Hlutverk Verkís við endurnýjun gufuhverfilsins:
Ráðgjöf og hönnun fyrir Landsvirkjun vegna endurnýjunar vél- og rafbúnaðar. Verkeftirlit, skipulagning og samræming prófana og gangsetningar.

Verkefni: Gufustöðin í Bjarnarflagi – Nýr gufuhverfill
Verkefni: Gufustöðin í Bjarnarflagi

Gufustöðin í Bjarnarflagi
Bjarnarflag