24/10/2024

GAMMA verkefnið í fréttum

Kjartan Due Nielsen, Nýsköpunarstjóri Verkís, var á dögunum í viðtali við Morgunblaðið og talaði þar um GAMMA verkefnið.

Á tímum þar sem loftslagsbreytingar og minnkun kolefnisspors skipta sköpum er Verkís í fararbroddi með GAMMA verkefninu, sem styður við orkuskipti í sjóflutningum. Verkefnið, sem styrkt er af Evrópusambandinu, einbeitir sér að þróun og innleiðingu tæknilausna sem gera flutningaskipum kleift að nota rafeldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Með samstarfi við 16 fyrirtæki og rannsóknarstofnanir í 11 Evrópulöndum leiðir Verkís veginn að sjálfbærum lausnum fyrir framtíðina.

Kjartan segir að markmið GAMMA sé ekki aðeins að sanna að það sé tæknilega mögulegt að nota rafeldsneyti í sjóflutningum heldur einnig að búa til viðskiptamódel sem gerir það raunhæft fyrir fyrirtæki að skipta yfir í þessa tækni.Með því að þróa og prófa lausnir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sjóflutningum getur þetta verkefni orðið að leiðarljósi fyrir önnur verkefni í framtíðinni.

Kjartan Due Nielsen, Nýsköpunarstjóri Verkís

Útdrátt úr viðtalinu er að finna fyrir neðan en hér er greinin í heild sinni: F2024-09-14

Langur líftími skipa hægir á orkuskiptum

Með verkefnum eins og GAMMA er sjóflutningageirinn að gera mikilvægar breytingar í átt að sjálfbærari framtíð, að sögn Kjartans. „Orkuskipti hafa þegar átt sér stað í öðrum greinum, eins og í bílaframleiðslu og orkugeiranum, en sjóflutningar hafa hingað til verið hægfara í þessum breytingum. Ein af ástæðunum fyrir því er að flutningaskip eru gríðarlega dýr og hafa langan lífaldur og það hefur ekki verið auðvelt að finna hagkvæmar leiðir til að skipta út jarðefnaeldsneyti án þess að það hafi áhrif á rekstur og afköst skipanna. GAMMA-verkefnið leggur áherslu á að þróa lausnir sem nýta rafeldsneyti, án þess að fórna afköstum skipanna. Þetta þýðir að fyrirtæki geta tekið þátt í orkuskiptunum án þess að tapa á því fjárhagslega til lengri tíma, sérstaklega þegar litið er til þess að kolefnisskattar á þennan geira munu aukast til muna á næstu árum og áratugum. Einnig þarf nauðsynleg innviðauppbygging í höfnum og á hafnarsvæðum að fylgja þessari þróun eftir og þar mun hlutverk ríkisstjórnar og sveitarfélaga skipta sköpum.“

Aukin samvinna milli stjórnvalda og fyrirtækja

Í ljósi þess að GAMMA-verkefnið er alþjóðlegt samstarfsverkefni sem nær til 11 landa, er það einnig gott dæmi um hvernig ríki og fyrirtæki geta unnið saman að lausnum sem hafa áhrif á alþjóðavísu. Í teymi GAMMA-verkefnisins eru fyrirtæki og stofnanir frá löndum eins og Noregi, Ítalíu, Þýskalandi og Íslandi, sem öll leggja sitt af mörkum til að þróa lausnir sem gera sjóflutninga grænni. „Samstarf á milli ríkja og fyrirtækja er lykilatriði í að ná árangri,“ segir Kjartan og bendir á að GAMMA-verkefnið sýni að tæknilegir innviðir, fjármögnun og pólitískur vilji þurfa að fara saman til að hrinda raunhæfum orkuskiptum í framkvæmd. „Með slíkri alþjóðlegri samvinnu er einnig hægt að stuðla að hraðari nýsköpun og framþróun, þar sem aðilar læra hver af öðrum og miðla þekkingu. Við höfum einnig mikinn áhuga á að nýta þekkingu og reynslu úr verkefninu til að setja af stað innlent verkefni sem ýtir undir orkuskiptin á Íslandi hvort sem það er á sjó eða landi, og með þátttöku allra hagsmunaaðila.

Heimsmarkmið