Gæsirnar streyma aftur til landsins
Gæsirnar streyma aftur til landsins. Í síðasta mánuði fóru gæsir í þúsundatali að fljúga til Íslands. Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, er mjög fróður um þessi mál og segir á Facebook síðu sinni að gæsirnar byrji að koma til landsins í mars og streyma svo til landsins í apríl og flestar séu komnar núna í byrjun maí. Um 20 gæsir bera á sér GPS-sendi og hægt er að fylgjast með ferðum þeirra á vefsjá hér og hér. Leiðbeiningar fyrir vefsjánna er hægt að lesa hér. Grágæsamerkingarnar eru sameiginlegt átak Verkís, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúrustofu Austurlands síðastliðið sumar. NatureScot sem er umhverfisstofnun Skotlands lagði til sendana auk þess sem Verkís gæsir eru styrktar af fyrirtækjum, samtökum og einstaklingum.
Eins og sjá má á vefsjánni var ein gæsanna, grágæs 92, sem dvaldi hér á Íslandi í vetur og haldið sig að mestu í Þykkvabæ og Landeyjum. Einnig er hægt að lesa tímann sem það tekur gæsirnar að ferðast þessa 900 kílómetra leið frá Bretlandseyjum til Íslands, en Helsingi einn er sigurvegari í þeirri keppni. Hann var sjö tíma á leiðinni og fór vel yfir 100 kílómetra hraða á klukkustund á tímabili. Arnór sagði í samtali við RÚV að fuglarnir fljúgi í nokkur hundruð metra hæð, en álftir hafi mælst í miklu meiri hæð; tæpum 30 þúsund fetum. Þetta olli því að það voru sendar herþotur á móti þeim yfir Írlandi, vegna þess að það sást punktur á ratsjánni sem ekki var ljóst hvað var. Kom þá í ljós að þetta var álftagrúppa.