12/02/2018

G.Run. Ein fullkomnasta fiskvinnsla í Evrópu

G.Run.
Grundarfjörður

Að undanförnu hefur Verkís komið að hönnun nýbyggingar fyrir Guðmund Runólfsson hf. í Grundarfirði og kallast verkefnið G.Run. fiskvinnsla. Að sögn stjórnenda G.Run verður þetta ein fullkomnasta fiskvinnsla í Evrópu.

Verkís sér um hönnun burðarvirkja, loftræsikerfa, vatnsúðakerfa, hreinlætis- og vatnskerfa, raflagna, lýsingar, reykskynjarakerfa, myndavélakerfa og fjarskiptakerfa auk brunahönnunar í þessu verkefni.

Nýbyggingin er 2.430m² á 1.hæð og 275m² á 2.hæð en auk þess verður núverandi fiskvinnsluhúsi breytt og verða þar 2 stórir lausfrystar auk starfsmannaaðstöðu o.fl. Í nýbyggingunni verða tvær vinnslulínur, önnur fyrir karfa og hin fyrir bolfisk, en það er nýjung í svona vinnslu að vera með sérstaka karfalínu.

Í byggingunni verða bæði hráefniskælir og afurðakælir, en það er einnig nýjung að vera með sérstakan afurðakæli þar sem hitastigið getur farið niður í -10°C. Í nýbyggingunni verða einnig móttökusalur, tæknirými, frystivélasalur, verkstæði o.fl. Vinnslulínur og önnur fiskvinnslutæki koma frá Marel og Skaganum-3X og frystitækin koma frá Frostmark, en auk þess eru mörg tæki frá ýmsum öðrum aðilum.

Arkitekt byggingarinnar er Helgi Már Halldórsson hjá ASK arkitektum og hefur hann þurft að aðlaga bygginguna að skipulagi Marels á vinnslulínum, þröngri lóð, núverandi húsum o.fl., sem ekki hefur verið einfalt mál.

Í fiskvinnslunni er mikil áhersla lögð á hreinlæti og er vinnslusalurinn spúlaður með vatni hátt og lágt á hverjum einasta degi. Mikil áhersla er því á að veggir og gólf þoli vel allan þennan vatnsgang og var því ákveðið að hafa staðsteypta veggi í vinnslusalnum.

Burðarbitar í þaki eru grindarbitar úr stáli og er manngengt lagnarými fyrir loftræsingu, raflagnir og vatnlagnir í þakrýminu sem afmarkast af þaki úr PIR einingum og trapisustálplötum undir neðra byrði grindarbitanna  er vinnslusalurinn því laus við allar lagnir nema þær sem liggja að fiskvinnsluvélum, slöngum og tenglaboxum.

Við hönnun byggingarinnar er stuðst við BIM aðferðarfræðina (upplýsingalíkön
mannvirkja) þar sem allir byggingahlutar eru teiknaðir upp í þrívídd. Allir
sem koma að verkefninu fá aðgang að samsettum líkönum mismunandi fagsviða og
geta nýtt þau til samræmingar og rýni notenda. Í þeim tilgangi hefur meðal
annars verið stuðst við sýndarveruleika.

Stjórnendur G.Run vonast til þess að hægt verði að hefja störf í fiskvinnslunni á fyrstu dögum næsta árs.

G.Run.
Grundarfjörður